Það kom motta í heimsókn, þannig séð. Ég var gestkomandi í húsi þangað sem ég hafði selt mottuna í byrjun aldarinnar. Ég rak augun í að mottan hafði orðið fyrir hnjaski og þannig hafði uppstaðan í einu horninu trosnað upp. Ég fékk að hafa með mér mottuna heim og síðan gerði ég við hornið nokkuð vel, og svo tók ég auðvitað mynd af henni úti í snjónum. Það er gaman að fá gamla vini í heimsókn. Mottan þessi ásamt systur sinni er kennd við norðurljós. Hún var upphaflega undir eldhúsborði hjóna og ég sá alltaf fyrir mér að þau svifu á norðurljósum þegar þau drukku morgunkaffið sitt. Ég mæli með að fólk sem á mottur eftir mig setji þær a.m.k. einu sinni út í snjóbað að vetri hverjum. Þá kemst smá raki í þær og það er gott að sópa af þeim hið raka ryk. Þær mega ekki verða blautar í snjóbaðinu. Önnur motta flutti að heiman í dag. Hún er einnig ofin í rósabandi og er kennd við haustið og heitir þar af leiðandi Haust. Systir hennar er Vor en sú motta flutti til Danmerkur fyrir 15 - 20 árum síðan. Ég þurfti smá umhugsunarfrest þegar falast var eftir að fá að kaupa Haust, ég hugsaði mig vel og lengi um og í dag flutti hún á nýtt heimili! Þessi mynd af Hausti var tekin af ljósmyndaranum Kristínu Bogadóttir, ég fór sko með nokkrar mottur í ljósmyndun hérna um árið og það skilaði sér í góðum myndum. Það er oft þannig að ég verð hrifin af eigin verkum og þó ég sé að sýna verkin mín og með þau í sölu þá finnst mér ekki alltaf sjálfsagt að selja verkin mín. Auðvitað á ég að selja þau ef fólk vill eignast motturnar mínar, textíllistaverkin mín. En þetta er eins og fyrir fólk sem þarf að koma börnunum til manns og út í heiminn, þannig er þetta með motturnar mínar. Þær verða að fullorðnast á sinn hátt og ég get ekki átt hundruði verka eftir sjálfa mig. Ég þarf að eiga verk eftir aðra líka og það er gaman og innspýting í hið skapandi ferli.
0 Comments
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Categories
All
|