Eftir óvænta og skemmtilega heimsókn mína hjá kollega í myndlist sem að hófst í björtu þar sem við horfðum anduktugar á sundin blá og fjöllin við Kollafjörð og endaði í myrkri þar sem strætóarnir skörtuðu sínu fegursta í Borgartúni gekk ég að strætóstoppi sem heitir kannski Höfði og sá að vagninn kæmi eftir korter og eins og aðrir notaði ég símann til að verja eða eyða tímanum með því að athuga pósta og aðrar upplýsingar sem að var að finna í tækinu. Þar var póstur sem að spurði mig hvort ég væri að gleyma einhverju?! Panikk, panikk því ég hafði ekki sent inn tilætlaðar upplýsingar til sýningarnefndar Textílfélagsins vegna Hönnunarmarss! Miðaldra kona í panikki á strætóstoppi að reyna að skrifa upplýsingar, finna upplýsingar og mál og myndir og svo kemur auðvitað vagninn miklu fyrr en ætlað ( þökk sé símaafþreyingunni) og inn með mig í vaginn, fékk mér gott sæti og hélt áfram panikkleit og sendingum. Þetta tókst, held ég. Að kvöldi dags 13. febrúar kom ég heim af fundi ofandnefnds félags og átti tal við samnefndarkonu mína í ferðanefnd annars félagsskapar í síma. Ég stóð í stofunni og horfði á tunglið stórt og bjart og allt í einua var öll birta orðin græn og ég leit upp til hægri og yfir mér í björtu þéttbýlinu var stærðarinnar kóróna norðurljósanna! Þvílík sýn hefur þessi kóróna verið í myrkum stað! Fór í leiðangur til Hafnarfjarðar. Strætisvagn nr. 1 úr Hamraborg í Fjörð. Gekk þar ýmissa erinda m.a. Matvöruverslinina! Verslunin heitir Nándin og þar get ég keypt nánast allt sem að hugur minn girnist og það er tveggja mínútna gangur í næsta strætóstopp þar sem hinn framangreindi vagn stansar. Var komin 50 frá búðinni á leið í strætó þegar síminn hringdi og það var ferðanefndarkollegi minn sem að hringdi; það þarf að kaupa meiri bleikju það hefur fjölgað í hópnum. Ég sneri við og verslaði meiri bleikju og svört piparkorn og hinar yndislegu kleinur sem eru steiktar á staðnum. Arkaði að nýju í strætóstoppið Lækjargata. Austan derringur en alveg frábært veður að öllu leyti og gaman að virða fyrir sér endur, gæsir og álftir. Sá grafandarkalla, anas acuta, á Læknum og vafalaust voru kellingarnar þar líka en ekki jafn áberandi.
Í dag mun ég stíga á sveif hjóls míns og hjóla nokkurra erinda innanbæjar í Kópavogi. Hef ekki hjólað síðan í ágúst eða september. Hef ekki enn sett nagladekkin undir en akkúrat þessa dagana er hálfgerð blíða og götur auðar af ís. Er þetta ekki bara svoldið spennandi líf miðaldra konu í Kópavogi? Er ég enn miðaldra, er ég ekki komin lengra en það?
0 Comments
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Categories
All
|