kEftir óvænta og skemmtilega heimsókn mína hjá kollega í myndlist sem að hófst í björtu þar sem við horfðum anduktugar á sundin blá og fjöllin við Kollafjörð og endaði í myrkri þar sem strætóarnir skörtuðu sínu fegursta í Borgartúni. Ég fór í strætóstopp sem heitir kannski Höfði og sá að vagninn kæmi eftir korter og eins og aðrir notaði ég símann til að verja eða eyða tímanum með því að athuga pósta og aðrar upplýsingar sem að var að finna í tækinu. Þar var póstur sem að spurði mig hvort ég væri að gleyma einhverju?! Panikk, panikk því ég hafði ekki sent inn tilætlaðar upplýsingar til sýningarnefndar Textílfélagsins vegna Hönnunarmarss! Miðaldra kona í panikki á strætóstoppi að reyna að skrifa upplýsingar, finna upplýsingar og mál og myndir og svo kemur auðvitað vagninn miklu fyrr en ætlað ( þökk sé símaafþreyingunni) og inn með mig í vaginn, fékk mér gott sæti og hélt áfram panikkleit og sendingum. Þetta tókst, held ég. Að kvöldi dags 13. febrúar kom ég heim af fundi ofandnefnds félags og átti tal við samnefndarkonu mína í ferðanefnd annars félagsskapar í síma. Ég stóð í stofunni og horfði á tunglið stórt og bjart og allt í einua var öll birta orðin græn og ég leit upp til hægri og yfir mér í björtu þéttbýlinu var stærðarinnar kóróna norðurljósanna! Þvílík sýn hefur þessi kóróna verið í myrkum stað! Fór í leiðangur til Hafnarfjarðar. Strætisvagn nr. 1 úr Hamraborg í Fjörð. Gekk þar ýmissa erinda m.a. Matvöruverslinina! Verslunin heitir Nándin og þar get ég keypt nánast allt sem að hugur minn girnist og það er tveggja mínútna gangur í næsta strætóstopp þar sem hinn framangreindi vagn stansar. Var komin 50 frá búðinni á leið í strætó þegar síminn hringdi og það var ferðanefndarkollegi minn sem að hringdi; það þarf að kaupa meiri bleikju það hefur fjölgað í hópnum. Ég sneri við og verslaði meiri bleikju og svört piparkorn og hinar yndislegu kleinur sem eru steiktar á staðnum. Arkaði að nýju í strætóstoppið Lækjargata. Austan derringur en alveg frábært veður að öllu leyti og gaman að virða fyrir sér endur, gæsir og álftir. Sá grafandarkalla, anas acuta, á Læknum og vafalaust voru kellingarnar þar líka en ekki jafn áberandi.
Í dag mun ég stíga á sveif hjóls míns og hjóla nokkurra erinda innanbæjar í Kópavogi. Hef ekki hjólað síðan í ágúst eða september. Hef ekki enn sett nagladekkin undir en akkúrat þessa dagana er hálfgerð blíða og götur auðar af ís. Er þetta ekki bara svoldið spennandi líf miðaldra konu í Kópavogi? Er ég enn miðaldra, er ég ekki komin lengra en það?
0 Comments
Frá því ég var í barnaskóla, núorðið kallast það yngri deild grunnskóla, hjólaði ég frá heimilinu í skóla, síðar í vinnu og skóla utan Garðahrepps/Garðabæjar. Ég nota hjólaði jafnt vetur sem sumar og hjólaði ekki eingöngu að heiman í vinnu heldur kom ég líka við í verslunum og verslaði það sem þurfti til heimilisins. Hjólið var sem sagt aðal ferðamáti minn innanbæjar. Ég keypti minn fyrsta bíl rétt fyrir aldamót í Ástralíu, en átti hann hálfan á móti kærastanum. Eftir slys og hremmingar keypti ég minn eigin bíl upp úr aldamótum. Hann átti ég í hér um bil fimm ár þega sá gaf upp öndina. Bíllinn sem ég keypti þarnæst gafst endanlega upp í lok júlí á síðast liðnu ári. Enn eina breytuna ber að nefna að fyrir þremur árum síðan klemmdist taug undir vöðva sem heitir piriformis. Taugin nefnist oft á íslensku Settaug. Þessi klemma var í hægri rasskinn og gerði það að verkum að ég get ekki hjólað nema að þessi klemma taki sig upp aftur. Klemman var verulega sársaukafull í 4 mánuði í upphaf fyrirbærisns.
Ég er sem sagt bíllaus, því mig langar að prufa hvernig lífið verður, ég get ekki hjólað neitt af viti og ég nota strætó dags daglega, geng heil ósköp og nota heimsendingaþjónustur og leigubíla líka. Lífið verður öðruvísi svona bíllaus og með fötlun sem hindrar hjólreiðar. Á virkum dögum tek ég strætó í vinnu. Það er fínt sérstaklega þegar maður fer á háannatíma því þá ganga vagnarnir allir á korters fresti og sumir jafnvel á tíu mínútna fresti. Ég arka bara upp í Hamraborg og get valið um þrjá mismunandi leiðir. Milli kl. 10 og 14 ganga vagnarnir margir á hálftíma fresti og um helgar. Það breytir ýmsu. Ég nefni sem dæmi laugardagsmorgun sem ég ákvað að fara í Garðheima. Þangað er 20 -30 mínútna gangur heiman frá mér. Ég ákvað að ganga þangað og fá þannig hreyfingu og frískt loft. Ég verslaði blómapotta og annað og fyllti bakpokann. Ég hafði athugað að ég kæmist með strætó heim ef byrðarnar yrðu þungar. Þegar til kastanna kom þá gat ég valið um að bíða í 20 mínútur eeftir vagni sem er á hálftíma fresti eða ganga heim með mínar byrðar á sama tíma. Ég kaus gönguna. Versliunar leiðangurinn tók einn og hálfan tíma. Á þeim dögum sem ég mæti ekki í launavinnu í Reykjavík hef ég stundum farið í útréttingarleiðangra. Ef ég ætla að útrétta innanbæjar í Kópavogi þegar strætó er á korters fresti þyrfti ég að fara að heiman klukkan hálfátta og vera komin heim upp úr kl. 10. Um daginn þurfti ég að erindast við Skemmuveg. Þá hafði ég byrjað daginn í Reykjavík snemma og náði leið 4 fyrir kl. 10 úr Reykjavík og fór á strætó alla leið á Smiðjuveg þar sem stoppið heitir Grá gata. Gekk minna erinda á Skemmuvegi. Næst fór ég í Nettó búð sem er skammt frá . Fyllti bakpokann af vörum. Ákvað að taka leið nr 35 heim þar sem sá vagn stoppar steinsnar frá búðinni. En svei mér þá, vagninn var nýfarinn og það voru 20 mínútur í næsta. Ég gekk þá sem leið lá eftir strætóstoppunum sem urðu fjögur eða fimm, beið smá og vagninn kom. Besta leiðin fyrir mig að versla, ég sem á heima í Kópavogi rétt hjá Hafnarfjarðarvegi, er að nota strætisvagn nr 1 sem er á korters fresti allan daginn nema á háannatíma þá er hann á tíum mínútna fresti. Ég set á mig bakpoka, geng upp í Hamraborg, bíð aldrei lengur en í korter, tek vagninn niður í Fjörð. Matvöruverslunin sem ég nota þar opnar ekki fyrr en kl. 11, en það býttar engu þar sem vagninn er á korters fresti og biðin því aldrei óendanlega löng. Gæti auðvitað líka ekið að Kringlunni og verslað þar, en mér finnst skemmtilegra að versla í Hafnarfirði. Innanbæjar í Kópavogi eru vagnarnir á hálftíma fresti milli kl. 10 og 14. Ef ég missi af strætó get ég alveg eins gengið með mínar byrðar eins og að standa og norpa í hálftíma. Ég græði heilmikla hreyfingu af þessu og styrk með burði á 10-15 kg bakpoka nokkrum sinnum í viku. Bíllaus, nægjusöm og einhleyp kona á sjötugsaldri vekur engar væntingar hjá fólki sem hún hittir á förnum vegi. Hvernig getur kerling sem að prjónar í strætó, er með lambhúshettu og húfu á höfði og með brodda á skónum að vetri, lifað áhugaverðu lífi, hugsar örugglega unga fólkið í strætó sem lifir tímann eina og langa þegar allt er nýtt og að springa út.
Anna-María heitir kona sem á heima í Kópavogi. Fyrir ekki svo löngu síðan hafði hún haldið jól með systur sinni og aldraðri móður. Það hafði snjóað fyrir jól og fryst og hlánað til skiptist. Jólahaldið var heima hjá systurinni þar sem fram var veitt hið ljúffengasta hreindýrakjöt frá Samalandi og maríneraðar síldar og dásemdar sítrónusnafs með. Með í jólahaldi var öldruð móðir beggja, blind og heyrnadauf en heyrnin mögnuð með heyrnartæki en sjónina bætir ekkert tæki. Eftir jóhald, gjafaskipti og aðra dásemd héldu A-M og móðirn aldna heim á leið í leigubíl. Þegar móðirin aldna var komin heilu og höldnu heim til sín hélt A-M af stað til síns heima, vel klædd, með bakpoka á baki og körfu fulla gjafa í hægri hendi. Það var ekki um langan veg að fara og hún valdi að ganga dimmustu leiðina heim í þeirri von að sjá jólastjörnur nokkrar á himni á milli éljanna eða skúranna hvort sem var von á. Hún þrammaði dimmustu leiðina sem að liggur yfir Kópavogstún og horfði til himins og sá eina og eina stjörnu blika og skýin ferðast um himinhvolfið á leið eitthvert til að skvetta úr sér. Hún fann að hún hafði stigið í poll og vatnið fór upp fyrir skóinn svo hún ákvða að drífa sig í gegnum hann og braut ísinn sentimeterþykkan og fyrr en varði náði pollurinn henni uppfyrir hné og hún féll á ísskörinni fram fyrir sig og lá flöt í pollinum með hægri hendi enn á handfangi körfunnar. Bakpokinn var vitaskuld á sínum stað. Hún varð undrandi, að það skyldi vera hægt að sama sem baða sig í Kópavogstúni! Henni tókst að krafla sig áfram og upp á fætur og brjóta sér leið gegnum ísinn í grynnkandi pollinum. Hún var rennandi blaut frá iljum upp að geirvörtum. Kuldinn sem var um núll gráður var fljótur að læsa sig í blautar flíkur og konu þar fyrir innan. Eftir andartaks umhugsun skundaði hún af stað heim á leið. Þá varð henni hugsað til manns sem að varð úti í Garðahrauni um það bil 110 árum fyrr. Karlmaður sem var á leið úr Hafnarfirði eftir Hafnarfjarðarvegi eða götu eftir skemmtun í Firðinum. Hann virtist hafa villst af leið og fannst örendur í Garðahrauni vestan Hraunsholts. Henni varð hugsað til annara sem að urðu úti á öðrum stöðum. A-M hlýnaði fljótt á göngunni heim sem var ekki lengur en 5 mínútur frá pollinum. Það er undravert hvað líkamann getur náð að hitna fljótt ef manneskjan er rétt klædd fyrir vetrarveður og kemur sér á hreyfingu. Þegar heim var komið þessa jólanótt fór hún beint inn á baðherbegið sem er votrými heimilisins. Fór úr hverri spjör og tæmdi blautan bakpokann og körfuna góðu. Þá kom sér vel að systir hennar hafði hvatt hana til að setja gjafirnar sem voru í körfunni í plastpoka ef það skyldi rigna eða snjóa á hana á heimleið frá móðurinni. Allt annað í körfunni var rennblautt. Hún gekk til rekkju og svaf vel. Svaf vel og lengi og hafði gleymt óförum næturinnar þegar hún gekk inn í baðherbergið á jóladagsmorgun og undraðist í sekúndubroti á óreiðunni þar inni þar til sundspretturinn stutti rifjaðist upp. Er ekki fall fararheill? |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Categories
All
|