Ég lenti í mjög undarlegum tilfinningatráma. Ég lenti í því að bíllinn minn hann komst á það stig að annað hvort tæki ég það upp hjá mér að vera áhugasöm um að gera upp bílinn ( leigja mér bílskúr, afla verkfæra, nördast í varahlutum o.s.fr.) eða ég fargaði honum. Ég tók þá ákvörðun eftir sólarhrings umhugsun að láta hann fara. Í gær lét ég bílinn renna í gang niður brekku í suðurhlíðum Kópavogs og svo fór ég í síðasta bíltúrinn á Yarisnum mínum um Kjósina. Það rifjaðist ýmislegt upp á leiðinni og ég var undrandi yfiir tilfinningaböndum þeim sem ég hafði myndað til þessa bíls. Til að allt yrði gert á réttan máta þá fór ég með hann í úrvinnslu/förgun í Mosfellsbæ. Bíllinn fékk skoðun í apríl, var á nýjum sumardekkjum og allt var í góðu standi til að hann entist í eitt ár. En síðan bilaði startarinn og þegar hann var losaður þá kom í ljós að einn bolti af þremur sem hélt honum föstum við vélina var brotinn þannig að startarinn hafði verið smá skakkur og af því leiddi þessi bilun. Til að gera við hefði þurft að skipta um þann hluta vélarinnar sem boltarnir festu startarann í. Ég kann ekki alveg að lýsa þessu en ég skil vandann. Í stuttu máli sagt; mega viðgerð, leigja bílskúr og fá mér nýtt hobbí eða förgun. Ég valdi kostinn; förgun. Mosfellsbær varð fyrir valin því að þar er partasala þar sem ég hef keypt varahluti í bílinn minn gegnum tíðina og ég fíla partasöluna í botn. Önnur ástæða er að Mosfellsbær er staður sem að huggar mig. Fyrir rúmu ári síðan var mér sagt upp í hlutavinnu sem ég var í á ferðaskrifstofu. Ég var mjög ánægði í vinnunni en eigendum fyrirtækisins hugnaðist ekki að hafa mig áfram í vinnu og notuðu gamla góða trixið; tóku af mér verkefni og ástæða uppsagnar var að þeir hefðu ekki næg verkefni fyrir mig. Ég varð leið og reið og alls konar tilfinningar börðust um í mér. Ég hefði getað farið og fengið verkalýðsfélagið til liðs við mig en ég var hálf fegin. Eftir að nýjir eigendur tóku við rekstri þá breyttist starfsandinn og mér fannst margt vera asnalegt en lét mig hafa það á meðan ég vann þar. Ég var ekki ánægð í vinnunni en beið þess sem kom svo í júní í fyrra; uppsögn.
Þetta var dropinn sem fyllti mælinn og ég hef alfarið snúið baki við ferðaþjónustu eftir að hafa unnið við hana í 30-40 ár. Ferðaþjónustan er ekki lengur ferðaþjónusta heldur ferðaskrímsli og er það ekki eingöngu hér á landi eins og flestir vita, nefni hér sem dæmi uppreisn gegn túrisma á Spáni. Daginn sem mér var sagt upp í fyrra hafði ég verið að velta fyrir mér hvernig ég ætti að komast á strætó á Helstháls þar sem tapað-fundið skrifstofa strætó er til að ná í bók sem ég gleymdi í strætó. Þar lokaði kl. 16 og var tæpt að ég kæmist eftir vinnu. En uppsögnin leysti málið og ég var komin fyrir hádegi á Hestháls og fékk bókina í hendur. Hvað svo? Ég ákvað að halda ferðinni áfram til Mosfellsbæjar með strætisvagni. Ég fór í Mosfellsbakarí og fékk mér kaffi með koffíni ( mjög djarft þar sem drekk ekki kaffi) og meðlæti. Fór svo í göngutúr um bæinn og þegar ég var búin að jafna mig á þessu uppsagnaráfalli og komin að niðurstöðunni; fökkðem, fór ég með strætisvagni heim í Kópavog. Það undarlega við að vera sagt upp er að fyrrum vinnufélagar hafa ekki samband að fyrra bragði og verða vandræðalegir þegar maður hittir þá á förnum vegi.
0 Comments
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
July 2024
|