Bíllaus, nægjusöm og einhleyp kona á sjötugsaldri vekur engar væntingar hjá fólki sem hún hittir á förnum vegi. Hvernig getur kerling sem að prjónar í strætó, er með lambhúshettu og húfu á höfði og með brodda á skónum að vetri, lifað áhugaverðu lífi, hugsar örugglega unga fólkið í strætó sem lifir tímann eina og langa þegar allt er nýtt og að springa út.
Anna-María heitir kona sem á heima í Kópavogi. Fyrir ekki svo löngu síðan hafði hún haldið jól með systur sinni og aldraðri móður. Það hafði snjóað fyrir jól og fryst og hlánað til skiptist. Jólahaldið var heima hjá systurinni þar sem fram var veitt hið ljúffengasta hreindýrakjöt frá Samalandi og maríneraðar síldar og dásemdar sítrónusnafs með. Með í jólahaldi var öldruð móðir beggja, blind og heyrnadauf en heyrnin mögnuð með heyrnartæki en sjónina bætir ekkert tæki. Eftir jóhald, gjafaskipti og aðra dásemd héldu A-M og móðirn aldna heim á leið í leigubíl. Þegar móðirin aldna var komin heilu og höldnu heim til sín hélt A-M af stað til síns heima, vel klædd, með bakpoka á baki og körfu fulla gjafa í hægri hendi. Það var ekki um langan veg að fara og hún valdi að ganga dimmustu leiðina heim í þeirri von að sjá jólastjörnur nokkrar á himni á milli éljanna eða skúranna hvort sem var von á. Hún þrammaði dimmustu leiðina sem að liggur yfir Kópavogstún og horfði til himins og sá eina og eina stjörnu blika og skýin ferðast um himinhvolfið á leið eitthvert til að skvetta úr sér. Hún fann að hún hafði stigið í poll og vatnið fór upp fyrir skóinn svo hún ákvða að drífa sig í gegnum hann og braut ísinn sentimeterþykkan og fyrr en varði náði pollurinn henni uppfyrir hné og hún féll á ísskörinni fram fyrir sig og lá flöt í pollinum með hægri hendi enn á handfangi körfunnar. Bakpokinn var vitaskuld á sínum stað. Hún varð undrandi, að það skyldi vera hægt að sama sem baða sig í Kópavogstúni! Henni tókst að krafla sig áfram og upp á fætur og brjóta sér leið gegnum ísinn í grynnkandi pollinum. Hún var rennandi blaut frá iljum upp að geirvörtum. Kuldinn sem var um núll gráður var fljótur að læsa sig í blautar flíkur og konu þar fyrir innan. Eftir andartaks umhugsun skundaði hún af stað heim á leið. Þá varð henni hugsað til manns sem að varð úti í Garðahrauni um það bil 110 árum fyrr. Karlmaður sem var á leið úr Hafnarfirði eftir Hafnarfjarðarvegi eða götu eftir skemmtun í Firðinum. Hann virtist hafa villst af leið og fannst örendur í Garðahrauni vestan Hraunsholts. Henni varð hugsað til annara sem að urðu úti á öðrum stöðum. A-M hlýnaði fljótt á göngunni heim sem var ekki lengur en 5 mínútur frá pollinum. Það er undravert hvað líkamann getur náð að hitna fljótt ef manneskjan er rétt klædd fyrir vetrarveður og kemur sér á hreyfingu. Þegar heim var komið þessa jólanótt fór hún beint inn á baðherbegið sem er votrými heimilisins. Fór úr hverri spjör og tæmdi blautan bakpokann og körfuna góðu. Þá kom sér vel að systir hennar hafði hvatt hana til að setja gjafirnar sem voru í körfunni í plastpoka ef það skyldi rigna eða snjóa á hana á heimleið frá móðurinni. Allt annað í körfunni var rennblautt. Hún gekk til rekkju og svaf vel. Svaf vel og lengi og hafði gleymt óförum næturinnar þegar hún gekk inn í baðherbergið á jóladagsmorgun og undraðist í sekúndubroti á óreiðunni þar inni þar til sundspretturinn stutti rifjaðist upp. Er ekki fall fararheill?
1 Comment
|
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Categories
All
|