Það er óskiljanlega tryllislega gaman að því að skapa. Í mínu tilfelli þessa daga er það að vefa og svo inn á milli eru nokkrar heimilissmíðar eins og smíða hillu eða blómakassa fyrir grindverk. En því fylgir mikil ánægja að geta gert hlutina sjálfur og þurfa ekki alltaf að kaupa tilbúið. Reyndar ætlaði ég að kaupa tilbúna blómakassa sem eru ætlaðir svölum en fann enga sem uppfylltu fagurfræðilegar og hagnýtar kröfur mínar. Endaði sem sagt á að smíða sjálf, úr afgangstimbri og fundnum timburbútum.
Það sem ég er að vefa þessa dagana er auðvitað fullt af ,,consepti". Á íslandi eru amk tvær húsdýrategundir í útrýmingarhættu; geitastofninn og forystufjárstofninn. Báðir fornir og merkir stofnar. Við Þistilfjörð á Norðaustulandi er Forystufjársetur. Þar tókst mér að næla mér í sýningarpláss árið 2032. Ein sýning er á staðnum á ári í 2-4 fermetra rými. Daníel á Forystufjársetri vildi ólmur gefa mér fullt af óhreinu togi blandað þeli af forystufé, þetta er í raun það sem gengur af þegar reyfi af íslenskri kind hefur farið í gegnum hæringavél mörgum sinnum til að eftir verði þel sem spunnið er band úr. Ég þáði einn stútfullan netpoka af efninu. Ég hef spunnið úr því band ætlað þessum vef sem ég ætla auðvitað að sýna á Forysturfjársetri 2032. Á móti mórauða sauðabandinu vef ég með fiðu sem er blönduð strýi og er efnið af íslenskum geitum. Þar var sama sagan, þegar var búið að hæra var fullt af nothæfu en strýju efni til sem að þær eðalkonur hjá Telespinn í Noregi kunnu ekki við að færi til spillis og spurðu mig hvort þær mættu spinna það og senda mér með hinu. Ég er búin að eiga þetta band í nokkur ár og nú nýtist það. Uppistaðan er vefgarn sem ég fékk hjá konu sem var hætt að vefa og ég smellti því í vefstólinn. Það glepur augað, því ekki verðu voðin blá og gul heldur mórauð og fiðugrá. Ég er rétt byrjuð og vonandi fer bráðum að rigna svo ég geti setið inni og ofið . Þetta er dásamlega skemmtilegt og erfitt í vinnslu. Það varð hlé á verkinu þegar ég hélt opna vinnustofu fyrir forvitna s.l. helgi, einn dagur fór í undirbúning, annar í að taka á móti gestum og þriðji að ganga frá. En gaman var það, svo gaman að ég steingleymdi að taka myndir.
0 Comments
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
October 2024
|