Hvernig á að þvo tuskuteppin
Ef þú hefur ekki tök á að þvo þitt tuskuteppi þá tek ég að mér gegn greiðslu að þvo tuskuteppi. Sendu mér línu og pantaðu þvott: weberstrasse[hja] outlook.com
Alltaf skal þvo með köldu vatni. Tuskuteppi eru úr blönduðum tuskum og litirnir misfastir. Flestir litir þola kalt vatn án þess að renna til.
Ef að teppið er notað sem gólfteppi er gott að þvo það einu sinni á eins til þriggja ára fresti. Reyndar fer það eftir þvi hvar í húsakynnum teppið liggur: Forstofa eða setustofa?
Hin sígilda finnska aðferð:
Einn mjúkur skrúbbur á mann með kústskafti ef vill
blautsápa ( Neutral, Ecover, Sonett, Blautsápa o.s.fr.)
eða sápukubbur
kalt rennandi vatn
gúmmíhanskar, stígvél
karfa með kaffi eða öðru góðgæti fyrir hléin
1 Fundin er góð og ber klöpp við stöðuvatn eða hreint fallvatn, hreint þvottahúsgólf, baðker, sturtubotn eða útipallur þar sem er kalt vatn í krana.
2 Teppið er allt bleytt með köldu vatni
3 Hella skal hóflegri lögg af blautsápu á skrúbbinn, eða nudda sápukubbinn á skrúbbinn. Teppið skúrað. Strokurnar skulu vera með ívafinu (tuskunum, röndunum). Annað hvort er maður á hnjánum eða standandi með kústskaft í skrúbbinn.
4 Skúraður er 20 – 50 cm bútur og síðan skolað vel. Áfram koll af kolli þar til öll hliðin er hrein. Þá er teppinu snúið við og þetta endurtekið. Munið að skola mjög vel.
5 Rúllið teppinu upp í þéttan vöndul og látið vatnið leka úr.
6 Hengt upp á snúru eða handrið, helst úti á sólríkum degi, inni er líka gott. Látið hanga í góðum þurrki 2-3 daga. Snúran þarf að vera sterk þar sem teppið þyngist ískyggilega mikið þegar það er blautt. Ívafið lagt þvert yfir snúruna. Snúa teppinu við eftir daginn svo hin hliðin snúi út.
7 Inn með teppið og njótið ilmsins af hreinu tuskuteppi.
Einnig er hægt að setja teppin í þvottavél, en þá ber að vigta teppið fyrst svo vitað sé hvort vélin beri það.
Teppið sett í mjúkan vöndul í vélina.
Síðan er stillt á kalda stillingu hámark 30 °C.
Blautsápu í hólfið, t.d. Neutral.