Ég er með sköpunarstíflu. Það er hreint og beint þannig. Eitthvað vantar í huganum til að sparka sköpuninni af stað. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju en get talið upp nokkur atriði sem ég held að hafi stuðlað að þessari stíflu, en ég ætla ekki að þreyta lesendur á því, nema þeir heimti það. En hitt ætla ég að segja frá en það er tuskumottuþvottur minn. Þetta er algjörlega einstaklingsbundin megindleg rýni í sjálfa mig. Upphaf tuskumottu og tuskumottuþvotta áhuga míns: Ég fékk snemma 4-5 ára gömul, að fylgjast með og taka þátt í tuskumottuþvotti foreldra minna á gólfi þvottahússins á heimili okkar í Blikanesi. Bleyta mottuna, sápa hana og skrúbba, Skola og síðan hengja til þerris, þurfti að vera góður þurrkur. Motturnar gjörþekkti ég hafði legið á þeim þar sem þær prýddu gólfin og rýnt í rendur og efnisgerðir og fundið gersemi á við tölur. Þær urður hreinar og vellyktandi eftir þvottinn og prýddu á ný gólfin. 8 ára gömul snerti ég vefstól í fyrsta sinn ævi minnar og varð fyrir miklum áhrifum. Impi frænka Anni ömmu minnar í Finnlandi var vefari. Nær öll sumur í sumarbústaði hjá ömmu í Finnlandi sem barn og unglingur. Alltaf einhver kona sem að skrúbbaði tuskumottur á granítgrettistaki við ströndina. Verk fyrir konur, ekki börn. Vinnukona í sveit á eyju í skerjagarði Finnlands. Eftir að hafa háþrýstiþvegið allt fjósið að innan fannst bændum að ég ætti að fá að njóta útiveru og vinna fyrir mér. Tuskumottuþvottur á granít hellu við ströndina. Sólskin og yfir 20 stiga hiti. Ég á sundbol einum fata. Skrúbbaði motturnar og skolaði að hætti múmínmömmu; á sundi. Ég var orðin fullorðin. Núna er ég enn fullorðnari, sköpunarstífla heltekur mig. Ég reyni að losa um hana með ýmsum leiðum. Tuskumottuþvottur ein þeirra. Ég er með tuskumottur um öll gólf heima hjá mér. Flestar ofnar af ömmu finnsku og frænkum hennar. Sumar af langömmu og frænkum hennar. Nokkrar af mér sjálfri. Anddyrismottan skítnar mest út; hjólið dregið inn allan ársins hring, útiskór mishreinir stíga á hana og þar er gert við hjól líka. Mottur ömmu og frænkna hennar. Ég bleyti mottuna, sápa, skrúbba og skola. Úr henni rennur dökkgrátt skol. Hengi til þerris og tek mynd. Ég er í samskiptum við formæðurnar sem að skópu mottuna. Í listsköpun minni hef verið að rembast við að vefa úr tuskum, endurvinna efni og þar með göfga tuskurnar, og segja sögur með tuskuvef á einstakan og nýjan máta. Ég hef selt slatta af mottum og sumar hanga á veggjum en aðrar prýða gólf. Gólfmotturnar óhreinkast auðvitað. Þá skal skrúbba þær á minn hátt eða annan t.d. með háþrýsitþvotti. Með því að skrúbba motturnar mínar þá lengi ég lífdaga þeirra, á samtal við vefarann í huganum og gleðst yfir því að vera í keðju kvenna sem að hafa skapað umhverfisvæna mottur sem endast lengi þegar þær eru vel ofnar og haldið við á réttan máta. Mér finnst ég vera menningarberi, nei ég er menningarberi.
0 Comments
|
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
October 2024
|