Ég álpaðist að skíða yfir Grænlandsjökul fyrir tugum ára síðan. Við þurftum að vera með góðan búnað hvort sem voru klæði, skíði, tjald eða eldunartæki. Ég átti nýlega gore tex lúffur sem ég hafði keypt mér í Bandaríkjunum. Skelin var úr Gore tex efni en innri vettlingurinn úr fleece sem er oft ritað flís á íslensku. Fleece er enska og þýðir reyfi; reyfi af sauðkind. Ég hef aldrei skilið af hverju frekar sérstakt orð um ull sem kemur af lifandi skepnu sé notað um efni sem er unnið úr plasti og er eldfimt á meðan ull er eldtefjandi efni.
Ég hafði notað lúffurnar fyrst með flísvettlingunum undir, en líkaði það ekki nógu vel. Það var minnsta mál að ná vettlingunum úr belgi lúffanna, aðeins fest með fersentimetra af frönskum rennilás. Þegar að Grænalandsjökuls túrnum kom í maí 1998 þá ákvað ég að ég ætlaði ekki að hafa flisvettlingana með. Ég átti í fórum mínum fallega vettlinga sem ég var ekki byrjuð að nota. Ég hafði keypt þá á handverksmarkaði í Reykjahlíð við Mývatn sumarið áður og eru þeir handprjónaðir úr tvíbandi en ég hef því miður glatað miðanum með nafni þess sem að prjónaði. Vettlingarnir hafa reynst vel sem fóður í lúffum. Þeir hafa þófnað lítið eitt og slitnað en ég hef bara stoppað í þá eins og ég geri almennt við vettlinga og ullarsokka af mér. Það var miklu þægilegra að mínu mati að vera í ullarvettlingum innan í lúffu-skelinni heldur en þetta flísefni og svo hafa þeir enst svo vel þrátt fyrir að þá sjái á þeim en þeir eru rúlega 20 ára gamlir eftir allt saman og mikið notaðir. Á myndinni eru Grænlandsvettlingarnir úr Mývatnssveit með nýjasta vettlingnum mínum sem ég á eftir að segja frá. Ég er ekki byrjuð að nota nýjasta parið og þeir hafa enga sögu að segja enn sem komið er.
0 Comments
Vettlingarnir úr Orkneyar bandinu hlupu ansi mikið, ullin er toglaus og mér datt í hug að tog gæti ef til vill haft áhrif á hversu mikið vettlingar hlaupa við blautverk. Ég ákvað að prjóna næsta par úr forystufjárbandi þar sem er tog í bland við þel. Ég ákvað að vera ekki að eyða eða verja tíma í að prjóna geitastroff heldur prjónaði stutt stroff með sléttum og brugðnum lykkjum. Ég ákvað að hafa þumlana víðari en á mórauðu geitavettlingunum. Gleymdi þeirri ákvörðun þegar ég prjónaði fyrri vettlinginn þannig að seinni vettlingurinn er með víðari þumli. Frábærir vettlingar. Ég vígði þá í göngu að Borgarhólum á Mosfellsheiði í hinu fegursta éljaveðri. Göngufélaganum fannst við fyrstu sýn að ég væri frekar illa vettlinguð en þegar hún mátaði þá fann hún að þeir voru jafnheitir og skíðalúffurnar hennar. Vettlingarnir komu vel út í fyrstu ferð og allar næstu ferðir. Fór oft í þeim á gönguskíði í frosti og vindi og alltaf var mér hlýtt á höndunum. Það kom þó að prófrauninni. Við vorum tvær sem að ætluðum í 2 ktl gönguskíðaferð við rætur Mosfelllsheiðar og síðan að heilsa upp á kunningja í sumarbústað í nándinni og þiggja veitingar og bað í heitum potti. Heiðskírt var og frost og nægur snjór. Við ókum einum skafli of langt og bíllinn sat fastur. í þrjá klt mokuðum við snjó og það var að mestu legið við þetta verk. Við losuðum bílinn þrisvar og festum jafn oft aftur. Einn bústaðs gestgjafanna kom og aðstoðaði okkur með auka skóflur því skaft annarrar skóflu okkar hafði brotnaði í látunum. Það kólnaði hratt þegar sól gekk til viðar. Við fengum aðstoð úr öðrum sumarbústaði, maður á öflugum jeppa dró slyddu jeppann úr síðustu hnappheldunni. Frostið hafði aukist til muna. Vettlingarnir fínu höfðu blotnað við moksturinn og voru orðnir gaddfreðnir. Mér var skítkalt. Til að ná upp hita í kropinn skíðaði ég ein að bústaðnum þar sem okkar var von en skíðafélaginn fékk far með húsráðendum. Tuttugu mínútna skíðatúr í brakandi frábæru snjófæri, með fullkominn áburð undir skíðunum sem rann og beit sem skyldi. Hiti fór að berast til handa og fóta með hverju skíðaskrefinu og gaddfreðnir vettlingarnir voru furðulega heitir. Stirndur himinn yfir höfðinu heilsaði mér og allt varð gott aftur. Vettlingarnir hlupu, þófnuðu og skruppu saman en ekki alveg jafn mikið og Orkneyjabands vettlingarnir. Víðari þumallinn sá á vinstri vettlingi er enn þægilega víður og hinn hægri er bara mátulegur. Þeir eru alveg vindheldir núna. Eftir þetta hlaup var kominn tími á að prjóna enn eitt vettlingapar. Móðir mín hefur alltaf haft gaman af því að prjóna og hefur í gegnum tíðina séð mér fyrir peysum, húfum, vettlingum og sokkum. En það kom að því að kona á tíræðisaldri förlaðist sjónin það mikið að hún sér ekki til að prjóna lengur.
Ekki voru þó góð ráð dýr því ég hef lært að prjóna, gera mynstur og reikna út stærðir. Í fyrsta sinn fóru leikar þannig að ég prjónaði á hana móður mína peysu eftir óskum hennar í fyrra sumar og hér er hægt að skoða um það Svo fór mig að vanta vettlinga og ég dreif mig í að prjóna veturinn 2019/20. Ég fékk þá hugmynd að prjóna með grennstu prjónum sem ég á til að vettlingarnir yrðu sem þéttastir og ég var líka að velta fyrir mér hversu mikið þeir myndu geta þófnað ef þeir væru fast prjónaðir. Ég fann til símynstur og hóf að prjóna fyrsta parið. Prjónaði úr íslensku forysturfjár ullarbandi fitjaði upp eitthvað í kringum 60 lykkjur. Vettlingarnir smellpössuðu á hendurnar en það var ekkert rúm fyrir griplur undir né að þeir mættu þófna. Urðu því notaðir sem bæjarvettlingar og ég gaf svo systur minni þá. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
October 2024
|