Ég álpaðist að skíða yfir Grænlandsjökul fyrir tugum ára síðan. Við þurftum að vera með góðan búnað hvort sem voru klæði, skíði, tjald eða eldunartæki. Ég átti nýlega gore tex lúffur sem ég hafði keypt mér í Bandaríkjunum. Skelin var úr Gore tex efni en innri vettlingurinn úr fleece sem er oft ritað flís á íslensku. Fleece er enska og þýðir reyfi; reyfi af sauðkind. Ég hef aldrei skilið af hverju frekar sérstakt orð um ull sem kemur af lifandi skepnu sé notað um efni sem er unnið úr plasti og er eldfimt á meðan ull er eldtefjandi efni.
Ég hafði notað lúffurnar fyrst með flísvettlingunum undir, en líkaði það ekki nógu vel. Það var minnsta mál að ná vettlingunum úr belgi lúffanna, aðeins fest með fersentimetra af frönskum rennilás. Þegar að Grænalandsjökuls túrnum kom í maí 1998 þá ákvað ég að ég ætlaði ekki að hafa flisvettlingana með. Ég átti í fórum mínum fallega vettlinga sem ég var ekki byrjuð að nota. Ég hafði keypt þá á handverksmarkaði í Reykjahlíð við Mývatn sumarið áður og eru þeir handprjónaðir úr tvíbandi en ég hef því miður glatað miðanum með nafni þess sem að prjónaði. Vettlingarnir hafa reynst vel sem fóður í lúffum. Þeir hafa þófnað lítið eitt og slitnað en ég hef bara stoppað í þá eins og ég geri almennt við vettlinga og ullarsokka af mér. Það var miklu þægilegra að mínu mati að vera í ullarvettlingum innan í lúffu-skelinni heldur en þetta flísefni og svo hafa þeir enst svo vel þrátt fyrir að þá sjái á þeim en þeir eru rúlega 20 ára gamlir eftir allt saman og mikið notaðir. Á myndinni eru Grænlandsvettlingarnir úr Mývatnssveit með nýjasta vettlingnum mínum sem ég á eftir að segja frá. Ég er ekki byrjuð að nota nýjasta parið og þeir hafa enga sögu að segja enn sem komið er.
0 Comments
Your comment will be posted after it is approved.
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
November 2022
|