MARS heitir þessi heklaða húfa enda er hún hekluð í mars, meira að segja kannski í febrúar. Hún er til sölu ef einhver vill eignast heklaða baskahúfu sem á engan sinn líka. En hvað finnst þér að svona húfa ætti að kosta, þ.e. hvað ertu tilbúin til að borga fyrir svona húfu. Hún er hönnuð af mér, hún er einstök og það mun ekki verða önnur eins verða hekluð. Það verða kannski heklaðar aðrar sem líkjast henni en engin eins. Það tók mig 28 klt að hekla húfuna og síðan að ganga frá endum. Ef þeir klukkutímar eru margfaldaðir með dæmigerðu verkatakakaupi þá er komin dálagleg summa.
0 Comments
Í rúmlega ár hef ég verið að vefa vörður. Þetta eru allt vörður sem ég hef hitt fyrir á göngum á fornum stígum. Ég lít á þær sem vini og í fyrsta sinn sem ég upplifði mikilvægi varðanna var fyrir um 40 árum síðan. Eftir að skóladegi í MHÍ lauk hafði ég húkkað mér far frá Rauðavatni upp í Bláfjöll til að fara á gönguskíði. Ég átti ekki bíl og var auralítill myndlistarnemi. Áætlunin mín var þessi: Skíða frá skíðasvæðinu í vestur að Grindarskörðum og fylgja vörðunum niður að vegi, Hafnarfjarðarleiðina í Bláfjöll og húkka mér far heim þaðan. Veður var mæta gott sem og skyggnið. En veður skipast fljótt í lofti. Þegar ég var komin í skörðin fór að hvessa og síðan þykknaði upp og áður en varði var komin hríð. Ég var með landakort og áttavita og var búin að finna til allar stefnur sem ég ætlaði að fylgja niður að vegi. Þetta var síðdegis á virkum degi í febrúar. Ég sá nú ekki mikið frá mér á þar sem ég telemarkaði eftir bestu getu niður skörðin en eitt sá ég og það voru vörður sem voru staðsettar þannig að þegar einni sleppit fór ég að grilla í næstu. Ég komst niður á veg eftir nokkuð margar telemark beygjur. Þar tók ég mér gott hlé og snæddi nesti. Það var orðið dimmt og ekki linnti hríðinni. Ég hugleiddi að skíða Selvogsgötuna á enda niður í Hafnarfjörð og gældi líka við hugmyndina að skíða meðfram veginum ef bíll skyldi nú koma, en enginn bíll hafði birst á meðan ég áði við veginn. Ekki ætlaði ég að dvelja í slysavarnarskýlinu. Leikar fóru þannig að loksins kom bíll. Ég rétti út hendi með þumalfingur á lofti og vonaði hið besta. Bíllinn stansaði og mér var boðið far. Hjónin í bílnu sögðu mér að lyftunum hefði verið lokað þegar hríðin skall á það var of hvasst að halda þeim gangandi. Þessi litla skíðaferð er ein minnistæðasta sem ég hef farið vegna varðanna sem að vísuðu mér veginn og þar með sönnuðu þær gildi sitt fyrir mér. Þær eru kannski undanfarar gps tækjanna. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
October 2024
|