Eldgamla mamma mín hafði orð á því í sumar sem leið að hún ætti ekki lengur lopapeysu og nú þegar hún er hætt að keyra bíl og fer ferða sinna gangandi, með strætó eða leigubíl þá væri gott að eiga hlýja peysu sem að færi vel undir kápu. Hún hætti núverið að geta prjónað þar sem sjóninni hefur hrakað þó henni sé haldið við eins og hægt er af augnlækni og hjúkrunarfólki. Mamma er fædd árið 1927 og hefur prjónað ótal peysur á mig, systur mína, ættingja og vini gegnum tíðina. Ég bauðst til að prjóna á hana enda vantaði mig skapandi verk því ég hef verið í sköpunarteppu s.l. ár.
Við settumst niður til að velta þessu fyrir okkur. Hún vildi ekki gamaldags peysu úr þreföldum plötulopa heldur létta peysu á við lopalæt peysurnar. Peysan átti að vera hneppt. Ég átti í fórum mínum mynstur að lopapeysu sem ég teiknaði og reiknaði út á menntaskólaárunum. Skissurnar að mynstrinu voru allar gerðar í tímum í MR, man ekki í hvaða fögum. Ég mældi mömmu fram og aftur og síðan reiknaði ég upp mynstrið mitt en það var hannað fyrir þrefaldan plötulopa. Peysuna sem ég prjónaði á menntaskólaárunum gaf ég til góðgerðamála fyrir nokkrum árum síðan. Við mæðgur áváðum að peysan ætti að vera prjónuð úr besta fáanlega lopa landsins; Þingborgarlopa. Við ókum austur yfir fjall eitt síðdegi í júní og keyptum lopa. Eingöngu var um sauðaliti að velja og það hentað mömmu vel. Eftir kaupin fórum við á kaffihús á Eyrarbakka og svo ókum við Suðurstrandarveginn heim þar sem Hellisheiðin var þakin þoku. En eftir að við ókum hjá Strandakirkju vorum við í þoku alla leiða framhjá Kleifarvatni og yfir Sveifluháls. Þokunni létti þegar yfir hálsinn var komið . Ég settist síðan við að prjóna og var þetta hin mesta skemmtun að prjóna eftir mynstri sem maður gerði táningur. Hér er afraksturinn:
2 Comments
|
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
July 2024
|