Ég vann í mörg ár sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna hér á landi, mest á sumrin. Var mikið í göngum með ferðamennina um fjöll og firnindi. Þeim fannst Ísland auðvitað áhugavert en mörgum ef ekki flestum fanns að það var gaman að upplifa íslenskt sumar en langaði alls ekki til að búa við svona sumur. Í þeirra huga vantaði hitann, meira sólskin, dimm og hlý sumarkvöld og annað í þeim dúr svo menn gætu spígsporað um á sumarfötum.
Svo er þetta með vorið, hvenær er vor á Íslandi. Ég rabbaði við nokkra vini um það í vor. Það er ekkert almennilegt vor á Íslandi, það vantar alveg ákefðina í vorið þegar lífið vaknar og það er ekkert vor þegar það er bara kalt. Mér fannst fólk ekki líta til birtunnar, hún er sannarlega vorboði. Með birtunni hlýnar ögn. Ilmurinnaf jörðinni þegar daginn lengir og það kviknar smá líf í sverðinum. Farfuglarnir mæta á svæðið og það verður kliður og söngur á hverju strái. Svo bætir bara í birtu og sumarið er allt í einu komið. Gróðurinn fer á harðasprettu. Júní hinn bjarti og júníregn sem er ekki eins og annað regn. Ilmurinn maður! Júlí þegar gróðurinn nær fullum þroska og grösin fara að sá sér og ofnæmið gerir vart við sig hjá sumum. Myndin er tekin að kvöldi 23.júní, það var norðan garri og skjól sunnan við vegg. Það kvökuðu og görguðu fuglar allt í kring enda var ég í Friðlandi fugla í Flóanum. Það var sumar!
1 Comment
|
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
July 2024
|