Ég tek þátt í hönnunarmars í fyrsta sinn. Ég lít reyndar ekki á mig sem hönnuð, heldur myndlistarmann, jafnvel þó ég vinni í textíl. Það er tilhneiging til að setja þá sem nota textíl sem miðil í hönnunarboxið. En þá vaknar á móti spurningin hver er munurinn á hönnuði og myndlistarmanni?
Ég hugsa þetta oft þannig að hönnuður hann hannar hluti, muni, flíkur osfr. sem að aðrir framleiða og oft er framleitt í massavís. Myndlistamaðurinn skapar verk og vinnur þau sjálfur og verkin eru einstök. Oft eru gefin út kort og plaköt með myndum af verkunum. Þar liggur þó efinn. Sumir myndlistamenn hanna verkin sín og láta öðrum eftir að skapa eða framleiða þau. Ég gúgglaði "difference between art and design" . Margir hafa tjáð sig um efnið á bloggum sínum. Í stuttu máli virðast flestir komast að niðurstöðunni: List og hönnun skarast oft á. List er ferðalag. Hönnun er ferill. Munurinn getur falist í sjónarmiði skoðandans og skaparans. Hönnun getur verið samspil fagurfræði og hagnýtrar úrlausnar. List er fagurfræði. Svona má lengi telja. Hver stýrir sjónarmiðinu skoðandinn eða skaparinn? Ég lít á mig sem myndlistarmann sem vinnur með textíl efni. Kannski er ég hönnuður þegar tuskumotturnar mínar eru hagnýtar gólfmottur en myndlistarmaður þegar þær eru hengdar á vegg til yndisauka. Ég held reyndar að ég sé á mörkunum og ég spyr sjálfa mig oft; þarf ég að skilgreina mig? Hvað um það ég tek þátt í hönnunarmars í fyrsta sinn með verk sem er myndlist. Svona lýsi ég verkinu og sjálfri mér: “Ég er gras sagði skáldið og græ yfir spor ykkar.” Verkið er tilvitnun í ljóðið “Verdun” eftir Matthías Johannessen sem vitnar í ljóð Steins Steinars “Gras” sem er þýðing á ljóði bandaríska ljóðskáldsins Carl Sandburg. “Grass” Ljóðin fjalla um fyrri heimsstyrjöldina m.a. á Verdun og Ypres og hrylllinginn þar. Matthías fjallar um stemmninguna við að vera á grónum vígstöðvunum áratugum síðar. Steinn Steinarr hreifst af ljóði Carls Sandburg og þýddi það frjálslega. Carl Sandburg upplifði hryllinginn og sneri honum í ljóð. Ég er snortin af þessum ljóðum og legg til mitt verk: Ljóðlína ofin úr hör; Linum usitatissimum sem er ein konar gras. Anna María Lind Geirsdóttir (1962) vefur yfirleitt úr tuskum en stundum notar hún önnur efni þegar tilefni er til. Vefstóllinn hefur verið miðill hennar en einnig hefur hún notað spuna bæði á snældu og rokk og aðrar aðferðirtil að tjá sig. Verk hennar eru alltaf sögur, frásagnir eða skilaboð til skoðenda verkanna enda lítur hún á myndlist sem miðil til að koma á framfæri því sem henni þykir mikilvægt m.a. loftslagsmál, nýtni og sjálfbærni. Anna María er með MA í textíl myndlist frá University of Southampton. Heimili og vinnustofa eru í Reykjavík. .
0 Comments
|
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Categories
All
|