Vettlingarnir úr Orkneyar bandinu hlupu ansi mikið, ullin er toglaus og mér datt í hug að tog gæti ef til vill haft áhrif á hversu mikið vettlingar hlaupa við blautverk. Ég ákvað að prjóna næsta par úr forystufjárbandi þar sem er tog í bland við þel. Ég ákvað að vera ekki að eyða eða verja tíma í að prjóna geitastroff heldur prjónaði stutt stroff með sléttum og brugðnum lykkjum. Ég ákvað að hafa þumlana víðari en á mórauðu geitavettlingunum. Gleymdi þeirri ákvörðun þegar ég prjónaði fyrri vettlinginn þannig að seinni vettlingurinn er með víðari þumli. Frábærir vettlingar. Ég vígði þá í göngu að Borgarhólum á Mosfellsheiði í hinu fegursta éljaveðri. Göngufélaganum fannst við fyrstu sýn að ég væri frekar illa vettlinguð en þegar hún mátaði þá fann hún að þeir voru jafnheitir og skíðalúffurnar hennar. Vettlingarnir komu vel út í fyrstu ferð og allar næstu ferðir. Fór oft í þeim á gönguskíði í frosti og vindi og alltaf var mér hlýtt á höndunum. Það kom þó að prófrauninni. Við vorum tvær sem að ætluðum í 2 ktl gönguskíðaferð við rætur Mosfelllsheiðar og síðan að heilsa upp á kunningja í sumarbústað í nándinni og þiggja veitingar og bað í heitum potti. Heiðskírt var og frost og nægur snjór. Við ókum einum skafli of langt og bíllinn sat fastur. í þrjá klt mokuðum við snjó og það var að mestu legið við þetta verk. Við losuðum bílinn þrisvar og festum jafn oft aftur. Einn bústaðs gestgjafanna kom og aðstoðaði okkur með auka skóflur því skaft annarrar skóflu okkar hafði brotnaði í látunum. Það kólnaði hratt þegar sól gekk til viðar. Við fengum aðstoð úr öðrum sumarbústaði, maður á öflugum jeppa dró slyddu jeppann úr síðustu hnappheldunni. Frostið hafði aukist til muna. Vettlingarnir fínu höfðu blotnað við moksturinn og voru orðnir gaddfreðnir. Mér var skítkalt. Til að ná upp hita í kropinn skíðaði ég ein að bústaðnum þar sem okkar var von en skíðafélaginn fékk far með húsráðendum. Tuttugu mínútna skíðatúr í brakandi frábæru snjófæri, með fullkominn áburð undir skíðunum sem rann og beit sem skyldi. Hiti fór að berast til handa og fóta með hverju skíðaskrefinu og gaddfreðnir vettlingarnir voru furðulega heitir. Stirndur himinn yfir höfðinu heilsaði mér og allt varð gott aftur. Vettlingarnir hlupu, þófnuðu og skruppu saman en ekki alveg jafn mikið og Orkneyjabands vettlingarnir. Víðari þumallinn sá á vinstri vettlingi er enn þægilega víður og hinn hægri er bara mátulegur. Þeir eru alveg vindheldir núna. Eftir þetta hlaup var kominn tími á að prjóna enn eitt vettlingapar.
0 Comments
Your comment will be posted after it is approved.
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
July 2024
|