![]() Ég á heima í 89 m2 íbúð. Hún inniheldur stofu, eldhús, gang, anddyri, baðherbergi, vefstofu og geymslu. Ég hafði aðgang að frábæru geymslurými í húsi foreldra minna á meðan það var. Ekkjan móðir mín seldi húsið fyrir 5 árum síðan og var það vegna þrýstings frá mér, ég var með áróður og ýtni í þrjú ár áður en hún setti húsið á sölu og seldi innan árs. Ekki nóg með að ég tók að mér að tæma hiða svakalega háaloft, sem ég fór að kalla svartholið þegar mér fannst era endalaust af dóti sem að var dröslast niður með. Dröslast segi ég því að til að komast upp var klifinn álstigi og farið upp um op sem var h.u.b. 90x90 cm. Sömu leið niður með alls konar dót t.d. þvottavél árgerð 1962 sem hafði verið keypt til að þvo bleyjur af barninu mér. Þetta átti ekki að vera frásögn um þegar ég tæmdi háaloftið einnig þekkt sem svartholið heldur hvernig ég nýti húsnæðið mitt, en háaloftið og bílskúrinn í Blikanesinu verða að koma að sögu. Á háaloftinu geymdi ég alls konar dót sem var í biðstöðu og óseld myndlistarverk. Í bílskúrnum hafði ég tekið við verkfærum og viðgerðarplássinum sem faðir minn nýtti. En þegar mamma seldi og húsið tæmdist þá bættist við dót, m.a. kláruð myndlistarverk eftir mig heima hjá mér og nokkur húsgögn. Með húsgögnin setti ég upp reglu; eitt inn annað út. Þannig seldi ég fyrir lítið hillu og tók inn lágan skáp sem gæti kallast skenkur, en hann er fyrst elhdúsmubla foreldra minna, smíðuð í Reykjavík á 6. áratugnum. Út fór fyrsta eldhúsmublan mín, borð sem ég keypti gegnum auglýsingu í Þjóðviljanum 1988. Merkilegt borð; maður lyfti borðplötunni af og gat þá sveflað upp straubretti á örmum, sem að geymdist undir borðplötunni. Inn kom annað vængjaborð. Út fóru fínir tekkstólar sem ég hafði fengið gefins frá vinkonu mömmu inn komu 150 ára gamlir. Svo leigði ég geymslu undir myndverkin mín til að rýma til hér heima. Það kom að því að sagði upp geymslurýminu því yfir mig kom tilfinning að ég þyrfti að draga saman seglin. Það reyndist rétt tilfinning því skömmu seinna var mér sagt upp vinnunni þeger covid.19 brast á. Veitti ekki af að spara aurana. Allt dótið heim. Endurskipulag á heimilinu. Það tókst einhvern veginn og það er ekki ofhlaðið enda gaf ég hluti sem ég þurfti ekki að nota lengur og hafði ekki notað lengi. Nú er vefstofan mín búin að vera málunarverkstæði í mánuð. Ég var að mála neðri eldhússkápahurðirnar mína. Breiddi yfir vefstólinn Varpapuu, singer saumavélina Jósefínu og gólfið allt með plasti. Pússaði, grunnaði og málaði á víxl. Nú er ég orðin leið á þeirri iðju og byrjuð að taka saman og breyta í vefstofu aftur. Áður hef ég t.d. breytt eldhúsinu í smíðaverkstæði í einn dag og baðherbergið var málunarverkstæði þegar ég var enn að vinna á ferðaskrifstofunni og notaði sturtuna þar daglega eftir hjólatúr morgunsins. Stundum óska ég þess að ég ætti bílskúr og þyrfti ekki að breiða yfir vefstóla og umbylta heimilinu í nokkrar vikur þegar ég mála eða smíða. En eftir að hafa tekið þátt í tiltekt og brottkasti textílfélagsins þegar það skipti úr stórri sameiginlegri vinustofu til tíu ára í minna rými þá var ég fegin að hafa ekki meira húsnæði til að safna dóti í sem að svo hverfur á bakvið annað dót og koll af kolli. Eiginlega er ég nokkuð sátt við mitt húsnæði. Ég á mér samt bílskursdrauma enn.
0 Comments
Your comment will be posted after it is approved.
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
November 2022
|