Mér finnst gaman að ýmsum lífverum. Ég bjarga iðulega ánamöðkum sem verð innlyksa á steyptu yfirborði þegar þeir halda að þeir hafi flúið vatsnósa bæli sín í moldinni. Ég heilsa alltaf köttum á förnum vegi sem og hundum og fuglum og fólki. Á leið heim úr sundi, gangandi að rétt fyrir kl. 10 eitt kvöld heilsaði ég gulum ókunnum ketti sem sat við endan á efsta raðhúsinu við Vogatungu, oddatölumegin. Hann fagnaði mér og kom og strauk sér um fætur mér.Hann var með ól um hálsinn með undarlegum silíkon poka á en hann var tómur. Svo fór að kötturinn flækist fyrir fótum mér og spjallaði alla leið heim að dyrum á nr. 7. Hann kom inn og skoðaði sig um og ég ýtti honum út því það var kominn háttatími og einhver beið hans heima. Ég fékk þó bakþanka og opnaði FB síðu um týnda ketti. Einn gulur týndur frá Hafnarfirði. Líklegur. Sendi eiganda skilaboð. í þræðinum sá ég mynd af alveg eins ól og "minn" köttur var með. Hmm, ég spurði um ólina og var sagt að þetta væri gps tækis ól. Hefurðu séð þennan kött spyr viðmælandi minn? Hann er auglýstur týndur.Viðmælandinn, dýrahjúkrunafræðingur, sendi mér slóð og ...ég rauk út í dyr og kallaði út í myrkrið á kisa og hann kom hlaupandi tilbaka og beint inn. Nú lokaði ég kyrfilega á eftir honum. Hann fór undir rúm og byrjaði að snyrta sig hátt og lágt. Ég hafði upp á eiganda: Já það er rifa/ör á eyrnartindinum, já hann er með svona ól, já hann er mjööög vinalegur. Við þurfum myndir: Já þetta er hann. Við komum! Við kisi biðum og fengum okkur hárfisk á meðan. Um hálftólf kom eigandi með kattamat. Kötturinn heilsaði honum með virktum en þegar kattamatur stóð til boða gleymdust allar sorgir. Kisi sem er kallaður Snúður á heima í Úlfarsárdal. Gps sporin hans sýna að hann heldur sig yfirleitt í ákvðenu radíus í kringum heimili sitt. Eitthvað gerðist í lok október þannig að hann hefur að öllum líkindum farið uppí eða undir bíl og fengið far í Kópavoginn. Hann hafði verið feitur og pattaralegur þegar hann hvarf en var orðinn spengilegur þegar ég hitti hann. Um daginn þurfti ég að skreppa til mömmu minnar sem á heima handan Hafnarfjarðarvegar. Þetta var að kvöldi til og ég kaus að vanda að ganga yfir hið forna Kópavogstún. Þar sé ég að bíll hefur lagt við Kópavogsbæinn gamla og mér flaug í haug; díler eða hundaeigandi. Ég gekk áfram og sá að eitthvað rautt skaust úti myrkrið; hundur með ljósaól. Áfram gekk ég og stansaði stuttlega á túninu til að virða fyrir mér stjörnur himins þá verð ég vör við eitthvað við fætur mér; frisbí og hundur! Gerðu svo vel og kastaðu sagði hundurinn og áttaði sig á því að þetta var röng manneskja! Af látbragði hans að dæma hugsaði hann svo: Ok skiptir ekki máli hver þú ert gerðu svo vel hér er frisbí og kastaðu! Auðvitaði skutlaði ég frisbíinu út í myrkrið og hann þaut á eftir því og sótti og lagði sex sinnum enn við fætur mér. Hundeigandinn var skammt frá mér og við spjölluðum um það hversu mikið það gleður hunda að leika sér að sækja svona leikfang. Í raun og veru vitum við ekkert um hvað hundurinn er að hugsa nákvæmlega við þessa athöfn. Skiptir ekki máli. Í næstu ferð ákvað hundurinn að sjá aumur á mannveru sinni og lét honum eftir að kasta frisbí út í náttmyrkrið. Ég hélt áfram mína leið. Sagði mömmu gömlu (95 ára) frá þessu atviki. Hún hafði gaman af eins og ég. Það eru svona atvik í hversdagslífinu sem að "sätter guldkant på tillvaron".
0 Comments
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
June 2024
|