Náttúruverndartrefill, hvað er nú það.
21. október 2013 réðst lögregla til atlögu gegn friðsömum mótmælendum í Gálgahrauni og enduðu á að handtaka og henda í svartholið níu einstaklinga. Allt í nafni 19. greinar lögreglulaga þar sem kemur fram almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglum á almannafæri. Allt í nafni 19. greinarinnar en ekki orð um 15. greinina þar sem segi m.a. að óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu getur hún gripið til nauðsynlegra ráðstafana á hans kostnað til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu. Það gátu þeir ekki gert þar sem að mótmælendur stofnuðu ekki almenningi hættu eða ullu tjóni! Það var Vegagerðin sem að olli tjónið. Eftir þessa atburði var ég í miklu uppnámi mest vegna þess hvernig illa er farið með valdið á hinu ástkæra landi okkar. Hvað er til ráða? Bíða eftir dómi og öllu því. En á meðan? Ég las grein um prjónagraff sem að er víðs vegar um heim. T.d. í borg í Ítalíu sem ég man ekki nafnið á en þar hrundi stór hluti borgarinnar í jarðskjálfta og hefur hún verið frekar dauf á svipinn og rústir einar. Konum nokkrum hugkvæmdist að skreyta borgina á meðan hún væri í rústum með prjónagraffi og fengu leyfi fyrir því. Óendanlega margir tóku þátt í verkefninu því það var ekki annað en að fitja upp á prjónana, prjóna og senda til kvennanna í Ítalíu. Mér fannst þetta gott ráð. Nú skyldi prjónaður náttúruverndartrefill, 210 metra á lengd til að minnast 21.10. Fitja skyldi 21 lykkjur á próna nr 9 til að minnast 9 menninganna og próna úr hespulopa, grænum litum tveimur trefil. Prjóna skyldi Garðaprjón öðru nafni Gálgaprjón. Baráttan okkar þurfti að hafa einhvers konar sameiningartákn sem að margir gætu tekið þátt í að búa til úr íslensku efni og í grænum lit. Prjónakunnátta er almenn á Íslandi og það að sitja heim og prjóna fyrir málstað eru e.k. sófamótmæli svo ég taldi að það myndi henta mörgum að taka þátt. Ekki þyrfti hver maður að prjóna nema úr tveimur hnyklum, tveimur grænum litum með röndum eftir vild og það yrðu 2 metrar á mann og þátttakan yrði 105 manns! En ekki fór eins og ég vonaðist til. Þátttakendur voru 16 alls, þar af einn sem ekki kláraði prjónlesið sitt. Prjónles frá hverjum og einum var frá 3 metrum upp í 30 metra. Aðrir þátttakendur voru fólk sem að mætti á fundi í Gálgahrauni og prjónuðu eina eða fleiri umferðir til stuðnings. Þátttakendum sem prjónuðu lengst var farið að leiðast prjónið. Gálgaprjón og alltaf grænn litur. Engir nýjir þátttakendur fengust til að taka þátt. En á sumarsólstöðum var trefillinn orðinn 160 m langur! Prjónaskapurinn tók á sig nýja mynd þegar ákærðir úr Gálgahrauni sátu í Héraðsdómi Reykjaness og prjónuðu látlaust á meðan að réttað var yfir þeim í einn og hálfan dag 11. og 12. september s.l. Trefillinn er enn að lengjast og nær bráðlega takmarkinu. Gálgaprjón er að prjóna úr grænum náttúrverndarlit langan umhverfisverndartrefil. Verkið getur orðið leiðingjarnt og það er erfitt að fá fólk til að leggja hönd á plóg. Það eru alltaf þeir sömu sem að leggja til vinnu við verkið. Þetta er eins og náttúruverndar baráttan. Hún er ekki skemmtileg en hún er þörf. Margir eru kallaðir en fáir taka beinan þátt. Jafnvel fáir taka þátt í þægilegum gjörningi sem snýst um að sitja bara heima og prjóna með prjónum númer 9 trefil sem er 21 lykkja á breidd og tveir hnyklar á lengd. Gjörningi þar sem nafn prjónamanns þarf ekki að koma fram, aðeins verkið. Er fólk á Íslandi virkilega hrætt við að láta skoðanir sínar í ljós? Eða er flestum skítsama? Mér finnst alltaf mesta furða að barnafólk taki ekki meiri þátt í þessari baráttu, því hún snýst um framtíðina og það eru börnin sem að taka við henni. Ég á ekkert barn sjálf því ekki myndi ég vilja bjóða barni upp á þá stjórnarhætti og náttúru skemmdir sem að nútíminn og framtíðin bjóða uppá. En samt tek ég þátt í baráttunni.
1 Comment
Sesselja Guðmundsdóttir
7/10/2014 14:07:14
Mikilvægt að fólk láti skoðanir sínar í ljós án þess að vera dregið í einhverja dilka. Þú mátt gjarna setja inn hvað verður um trefilinn og hvort hann fari í nýtingu að loknu sínu verki. Veit að sumu prjónafólki finnst það vera að kasta peningum (lopi og prjónar) á glæ. Sumir hafa færri peninga en aðrir.
Reply
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
November 2022
|