Ég byrjaði að vefa verk í desember 2014 sem fjallar um veðurfregnir og veður. Ég hafði varið nokkrum mánuðum í að horfa til himins og reyna að gera mér í hugarlund hvernig ég ætlaði að útfæra slíkt. Ég vissi að ég vildi vefa það, úr tuskum auðvitað, en hvernig ætlaði ég að sameina þuluna sem er þulin í útvarpi alla daga árið í kring í Ríkisútvarpinu íslenska og hið eiginlega veður?
Það sem mér finnst svo frábært við veðurfregnir útvarpsins er hin eintóna hrynjandi sem lýsir stundum næstum ólýsanlegum náttúruhamförum án þess að byrsta röddina eða skrækja af ánægju yfir sumarblíðu sem er á næstu grösum. Þessi eintóna hrynjandi sem að kveikir á minningum frá kvöldmatnum þar sem var sussað á mann því að flugmaðurinn í fjölskyldunni varð að hlusta gætilega á spána. Hvað manni hundleiddist þetta suð en samtímis var þetta hluti af öruggri og góðri æsku í faðmi fjölskyldu þar sem hlustað var á veðurfregnir og svo farið út í veðrið eða verið inni ef þannig var að skipta; stormur. Ég leit í kringum mig, fór út, dvaldist í veðrinu hvernig svo sem það var og ljósmyndaði það. Hugmynd mótaðist í höfði mér og fyrr en varði stóð hún mér skýrt fyrir sjónum. Næst var að hefja vefnaðinn; hægt og rólega. Ég var búin að ákveða vendina það er hvernig mynstur er ofið og er það mynstur táknmynd veðurfregnanna, eintóna og yndislegar. Lengd verksins ákvað ég líka hina helgu tölu sjö, í þessu tilviki sjö metrar. Túlkun á veðrinu ég skapaði ívaf fyrir ívaf í litum og tónum sem að áttu við hverju sinni. Þegar ég vef i vefstólnum mínum sé ég bara 20 - 40 cm af verkinu í einu nema ég fari að losa um voðarmeiðinn, en það kann ekki góðri lukku að stýra. Þannig að ég varð að treysta á sjálfa mig og sköpunarmátt minn. Mér finnst verkið endurspegla veturinn 2014-15 sem var með eindæmum harður og margar lægðir sem að komu yfir landið með tilheyrandi látum og ...fegurð. Uppi hangir núna verkið "Veðurfregnir" og með því tilheyrandi hljóð sem verður kveikt á í dag kl. 15: 30 eða svo. Velkomin á opnun sýningunnar í dag milli kl. 15 og 18 eða síðar á opnunartíma. Skál.
0 Comments
Your comment will be posted after it is approved.
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
October 2024
|