Rusl, plast, mengun, ruslahaugar, krabbamein, vatn, mengað vatn, græðgi, óstjórn, óþarfi, gnægð, nýríkir, heimska, ofgnótt, tillitsleysi og fleiri orð í þessum dúr dettur mér í huga alla daga.
Alla daga verður á vegi mínum eitthvað sem að vekur upp slíkar hugsanir. Frétt um plastfleka á úthöfunum og þegar ég horfi á plast-plastokann fyllast á mínu eins manns heimili eða þegar ég fer með viðarbúta á Sorpu og sé öll húsgögnin sem er verið að henda því þau eru ekki lengur í tísku eða enginn nennir að gera við þau. Hvað er þetta með mannkynið? Upphaflega var þetta ósk öreiganna forfeðra okkar að eiga léttbærara líf. Öreigarnir urðu til því að aðrir höfðu völdin og nýttu sér það og lögðu línurnar. Öreigarnir vildu vitaskuld lifa sama góða lífi og herrarnir. Enn er það þannig. Það eru ekki margir í þeim samfélögum sem ég lifi í sem að stoppa í sokka eða gera við slitinn sófa. Hver vill sýna að hann hefur ekki efni á að vera með nýjasta nýtt í íbúðinni? Ég skoða reglulega fasteignasölusíður á netinu. Meiri hluti íbúðanna eru eins. Íbúðir fólks sem nú er um sjötugt og eldra eru í sama stíl, þau keyptu draumahúsgögn síns tíma. Enginn, eða fáir vilja þau húsgögn núna. íbúðir yngra fólks eru næstum allar eins. Það er þessi sama klukka á vegg á öðru hverju heimili, þessi sem er í 13 hlutum, hver tala er fest á vegg og svo úrverkið í miðju. Mjög vinsæl klukka. Fólk er svo auðginnt með auglýsingum að það er eiginlega bæði hlægilegt og hræðilegt. Hvað varð um gömlu klukkurnar sem voru á veggjunum veit ég ekki. Sjálf er ég með gamla skipaklukku, sem þarf að trekkja, á veggnum. Hugsið ykkur það eru sófatískur! Nú eru í tísku 6. 7. tugs sófar, það verður að eignaðst þá og henda inum gömlu. Tungusófahelvítið er að buga ruslahaugana. Fólk flokkar þá ekki einu sinni í sundur; timbur, tau, málmar eða hvað sem þeir eru gerðir úr. Nú eru veggir málaðir í hvítum og gráum tónum. Norræni svali stíllinn ræður ríkjum. Ómálaður viður. Út með eldhúsinnréttinguna frá 9. áratugnum eða öðrum ekki-tískutug! Fáir þora að vera bara með gömu húsgögnin og innréttingarnar og vera ekki að styðja undir offramleiðslu heimsins. Gömul húsgögn verða lúin, en því betur sem þau voru smíðuð þeim mun betur endast þau og auðveldara er að gera við þau og halda við. Sama er að segja um ný húsgögn. Vönduð smíði borgar sig. Ég las grein um gamla vefstóla í Svíþjóð. Þar voru fyrr á tímum margir sem áttu vefstóla og ófu. Eigendurnir deyja og enginn vill hirða vefstólana. Vefstólasafnið er yfirfullt og getur ekki tekið við fleirum. Hvað er til ráða? Ungur húsa- og húsgagnasmiður, sem vinnur aðallega að viðhaldi húsa komst að því að í gömlum vefstólum er gott timbur. Hann tekur við gömlum vefstólum og smíðar úr þeim ný húsgögn eða notar í dyrakarma eða annað eins. Fyrir hvern gamlan vefstóll sem er endurnýttur sparast kannski eitt tré eða tvö. Er ekki ágætis timbur í tungusófunum? Við mannkyn þurfum að nýta betur það sem til er. Eiga fötin og húsgögnin okkar lengur. Gera við, ekki bara henda til að geta keypt eitthvað nýtt. Ekki versla til að sýna kaupmátt okkar og vald.
0 Comments
Your comment will be posted after it is approved.
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
June 2024
|