Góður dagur í vinnustofunni Weberstrasse er þegar ég þarf ekki að bregða mér af bæ, er með góða hljóðbók til að hlusta á og er við vefstólinn í 8-10 tíma með tehléum og stundum hádegisverðarhléi. Þetta er rosalega gaman og erfitt að útskýra hvað er svona skemmtilegt við þetta. Aðrir sem að eru að vinna við eitthvað skapandi þekkja væntanlega þessa tilfinningu. Ég man eftir einu skipti, það varði í viku eða svo. Það var vetur og ég var bara heima að vefa, fór í gönguferð um næstu hverfi fyrir svefninn og svo heim. Hitti engan má vera að ég hafi talað við einhverja í síma. Ég var alsæl í hellinum mínum. En það koma að endalokum; maturinn kláraðist. Man ég fór og fékk egg að láni hjá nágranna seint um kvöld til að geta eldað mér eitthvað. Mig langaði alls ekki úr þessu sjálfskipaða Nirvana en svo fóru leikar að ég sá fram á að verða verulega skrýtin og haldin samskiptafælni ef svo héldi áfram. Á dagskrá voru því settar heimsóknir á bókasöfn, kaffihús, heim til vina og kunningja og útivist. Þetta fór allt vel og ég endaði ekki í spennutreyju þá daga sem ég komst ekki í vefstólinn minn. Mér til mikillar undrunar lenti ég í hinu andstæða fyrir þremur árum síðan, mig langaði alls ekki að vinna í vefstólnum og ég hunsaði hann eftir bestu getu þar til í janúar fyrir ári síðan. Í fyrsta skipti sem mig langaði hætta þessu listabrölti og selja vefstólinn var þegar ég útskrifaðist úr Textíldeild Myndlista og handíðaskólans með lægstu einkunn okkar úr Textíldeild og umsögnin var nokkurn veginn svona: Lokaverkefnið ólistrænt. Ég hugsaði lokaverkefnisdómurunum þegjandi þörfina í þó nokkurn tíma. Ég stúderaði verk þeirra beggja og komst að þeirri niðurstöðu að þær væru sjálfar ólistrænar með meiru. Ég hef bara haldið mínu striki að vinna list mína úr endurunnu efni og glíma við vefstólinn á alls kyns hátt. Mig langar alls ekki að vera "póstkorta listamaður" þ.e. myndlistarmaður sem að framleiðir lítil, sæt og söluvæn verk. Ég hef kosið að vinna launavinnu, enda hollt að fara af bæ og út úr vinnustofunni endrum og ein, og fá kaup í lok hvers mánaðar í stað þess að framleiða söluvæn verk. Í Weberstrasse þar sem mín lögmál gilda vinn ég launalaust nema ég selji verk. Það er gaman að vera myndlistarmaður ef sköpunargleðin er fyrir hendi og það er til salt í grautinn. Góðar stundir :)
0 Comments
Your comment will be posted after it is approved.
Leave a Reply. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
July 2024
|