Mér finnst gaman að ýmsum lífverum. Ég bjarga iðulega ánamöðkum sem verð innlyksa á steyptu yfirborði þegar þeir halda að þeir hafi flúið vatsnósa bæli sín í moldinni. Ég heilsa alltaf köttum á förnum vegi sem og hundum og fuglum og fólki. Á leið heim úr sundi, gangandi að rétt fyrir kl. 10 eitt kvöld heilsaði ég gulum ókunnum ketti sem sat við endan á efsta raðhúsinu við Vogatungu, oddatölumegin. Hann fagnaði mér og kom og strauk sér um fætur mér.Hann var með ól um hálsinn með undarlegum silíkon poka á en hann var tómur. Svo fór að kötturinn flækist fyrir fótum mér og spjallaði alla leið heim að dyrum á nr. 7. Hann kom inn og skoðaði sig um og ég ýtti honum út því það var kominn háttatími og einhver beið hans heima. Ég fékk þó bakþanka og opnaði FB síðu um týnda ketti. Einn gulur týndur frá Hafnarfirði. Líklegur. Sendi eiganda skilaboð. í þræðinum sá ég mynd af alveg eins ól og "minn" köttur var með. Hmm, ég spurði um ólina og var sagt að þetta væri gps tækis ól. Hefurðu séð þennan kött spyr viðmælandi minn? Hann er auglýstur týndur.Viðmælandinn, dýrahjúkrunafræðingur, sendi mér slóð og ...ég rauk út í dyr og kallaði út í myrkrið á kisa og hann kom hlaupandi tilbaka og beint inn. Nú lokaði ég kyrfilega á eftir honum. Hann fór undir rúm og byrjaði að snyrta sig hátt og lágt. Ég hafði upp á eiganda: Já það er rifa/ör á eyrnartindinum, já hann er með svona ól, já hann er mjööög vinalegur. Við þurfum myndir: Já þetta er hann. Við komum! Við kisi biðum og fengum okkur hárfisk á meðan. Um hálftólf kom eigandi með kattamat. Kötturinn heilsaði honum með virktum en þegar kattamatur stóð til boða gleymdust allar sorgir. Kisi sem er kallaður Snúður á heima í Úlfarsárdal. Gps sporin hans sýna að hann heldur sig yfirleitt í ákvðenu radíus í kringum heimili sitt. Eitthvað gerðist í lok október þannig að hann hefur að öllum líkindum farið uppí eða undir bíl og fengið far í Kópavoginn. Hann hafði verið feitur og pattaralegur þegar hann hvarf en var orðinn spengilegur þegar ég hitti hann. Um daginn þurfti ég að skreppa til mömmu minnar sem á heima handan Hafnarfjarðarvegar. Þetta var að kvöldi til og ég kaus að vanda að ganga yfir hið forna Kópavogstún. Þar sé ég að bíll hefur lagt við Kópavogsbæinn gamla og mér flaug í haug; díler eða hundaeigandi. Ég gekk áfram og sá að eitthvað rautt skaust úti myrkrið; hundur með ljósaól. Áfram gekk ég og stansaði stuttlega á túninu til að virða fyrir mér stjörnur himins þá verð ég vör við eitthvað við fætur mér; frisbí og hundur! Gerðu svo vel og kastaðu sagði hundurinn og áttaði sig á því að þetta var röng manneskja! Af látbragði hans að dæma hugsaði hann svo: Ok skiptir ekki máli hver þú ert gerðu svo vel hér er frisbí og kastaðu! Auðvitaði skutlaði ég frisbíinu út í myrkrið og hann þaut á eftir því og sótti og lagði sex sinnum enn við fætur mér. Hundeigandinn var skammt frá mér og við spjölluðum um það hversu mikið það gleður hunda að leika sér að sækja svona leikfang. Í raun og veru vitum við ekkert um hvað hundurinn er að hugsa nákvæmlega við þessa athöfn. Skiptir ekki máli. Í næstu ferð ákvað hundurinn að sjá aumur á mannveru sinni og lét honum eftir að kasta frisbí út í náttmyrkrið. Ég hélt áfram mína leið. Sagði mömmu gömlu (95 ára) frá þessu atviki. Hún hafði gaman af eins og ég. Það eru svona atvik í hversdagslífinu sem að "sätter guldkant på tillvaron".
0 Comments
Sumardagurinn annar er á morgun en þá er foropnun á sýningu minni "Wörður vinur mínar" í Listasal Mosfellsbæjar. Sumir hafa enga hugmynd um hvar Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur en ég skal lýsa því hér. Í Mosfellsbæ er bygging sem kallast Kjarni. Þar eru skrifstofur Mosfellbæjar til húsa, Bókasafn, hárgreiðslustofa og síðast en ekki síst í upptalningunni; Vínbúð! Hér er kort og þar sem er rauður punktur og á stendur Mosfellsbær þar er byggingin. Það er hægt að leggja fyrir neðan hús eða ofan. Fyrir neðan: Maður fer inn í kjallaran, þar verður Vínbúðin á vinstri hönd og svo upp með rúllustiga og þar fer maður inn á Bókasafnið og áfram inn í Listasalinn.
Fyrir ofan: Maður kemur inn í stórt rými og heldur inn til hægri, inn á Bókasafn og áfram í Listasalinn. Aðeins stærra kort hér fyrir neðan. Gleðilegt sumar, jafnt fyrsta, annan og þriðja í sumri. Velkomin á opnun á morgun og hinn. Sumardagurinn annar kemur á eftir sumardaginn fyrsta. Sumardaginn ANNAN ætla ég að vera með Foropnun. Væntanlega Fordrykki líka.
Sumardaginn ÞRIÐJA ætla ég að vera meða AÐALopnun. Þá verð ég auðvitað með AÐALdrykki í boði. Þetta snýst svoltíðið um það að þeir sem ekki komast á opnun um helgi, t.d. fréttamenn þeir gætu komist á föstudegi sem og margir vina og kunningja minna. Svo er heill hellingur sem á betur með að koma á opnun á laugardegi. Ég er orðin spennt og alls ekki búin að öllu. Þetta er meira en jólin. Þetta verður fyrsta einkasýning mín í a.m.k. fimm ár. Maður hendir saman í köku, reyndar geri ég það ekki hef ekki bakað kökur lengi, komin úr æfingu. Gat einu sinni hent í brauð, blindandi. Ég get ekki heldur hent saman í sýningu heldur er ég árum saman að safna í sarpinn áður en hugmyndirnar verð skýrar og ég treysti mér til að berja þær saman í vef. Núna á ég til slatta af verkum sem ég vann að í tæp tvö ár í vefstólnum en undanfarinn að því verki voru örugglega tvö ár þar sem ég reikaði um Mosfellsheiði á skíðum og einu sinni á hjóli. Ég heimsótti drauga, vörður, og fagra snjóskafla og hugmyndir fóru á kreik í höfðinu. Ein hugmynd varð síðan að veruleika í verkinu "Veðurfregnir" sem var seinasta s.k. einkasýningin mín (einkasýning er þegar maður sýnir einn, en ég var sko ekki ein í húsnæðinu, annar maður sýndi sín verk á efri hæðinni). Nú stefni ég aftur á einkasýningu að þessu sinni verður hún í listasal Mosfellsbæjar apríl - maí 2022. Af hverju í ósköpunum þar? Já lesandi góður það eru ástæður fyrir því og þær sér maður skýrast í listasal Mosfellsbæjar. Næsta skref er að hitta samstarfsmenn mína og vini sem munu aðstoða mig við að setja upp. Það verður á morgun, þ.e. að við hittumst svo fremi sem veður leyfir. Kannski stjórna þeir, kannski ekki. Líklega verður þetta samstarf.
En sem sagt eftir rúman mánuð á sumardaginn annan mun ég opna sýningu á verkum mínum sem að eru afsprengi ráfs míns um Mosfellsheiði. Ég fékk fyrirspurn um hvað ætti að gera við mottu sem hundur hafði nagað jaðarinn á. Auðvitað gerir maður við en það eru í stórum dráttum tvær leiðir: Gera við svo bótin sjáist eða svo að viðgerðin verði ósýnileg. Hið fyrra vinnst yfirleitt hraðar en síðari kosturinn og þarf ekki að vera síðra fyrir það. Jafnvel þó að bótin sé sýnileg þá sést hún ekki í sumum tilvikum. Verður hluti af heildinni.
Mottan á myndinni kom í farangri mömmu þegar hún flutti til Íslands 1955 eða 56. Eldhúsdregill. Var í stanslausri notkun fyrst í eldhúsi, svo á gangi og að lokum í gróðurhúsi. Var að endingu orðinn svo slitinn að ég klippti hann í þrennt og gekk frá endunum að sjálfsögðu. Einn bútur var orðinn slitinn á jaðri og ég bætti hann, sá sem er á myndinni. Ég nota þessa búta undir hjólið mitt á veturna. hjóleið geymi ég í anddyrinu og þar er flísalagt gólf. Nagladekk hjólsins renna til á flísunum svo mottubútarnir koma í veg fyrir rennsli og fall hjólsins. Einnig taka þeir við bleytu, snjó og malbiki sem berst inn á veturna. Mér finnst gaman að bæta og staga í flíkur og aðrar textíla sem að slitna af notkun. Lengi þannig notkunartímann. Stundum voru vörður hlaðnar hver með sínu nefi. Ef menn fóru oft um götur og stíga þá þekkti þeir vörðurnar. Ef þeir lentu í þoku eða byl á Mosfellsheiði og fundu vörðu gátu þeir oft gert sér grein fyrir hvar þeir voru ef þeir þekktu vörðuna. Mosfellheiðin er þanni að hún er að miklu leyti auðkennalaus nema maður sjái til fjalla. Ég hef sjálf villst þar í hvítu þ.e. snjór á jörðu og lágskýjað næstum þoka þannig að ekki sást til fjall. Ég bjargaði mér á GPS tæki a.m.k. tvisvar. Eitt sinn hafi ég skíðað frá Þingvallavegi lengst í suður. Þann dag var hvíta. Þegar ég ákvað að snúa við tók ég stefnu á bílinn í gps tækinu og hóf för í þá átt. Ég vissi að eftir 2 km átti ég að skíða yfir tjörn, ísi og snjói lagða. Aldrei kom tjörnin undir skíðunum. Ég dró upp gps tækið og mér til mikillar undrunar sá ég að ég hafði skíðað í hring! Mjög undarleg tilfinning að vera algjörlega eins og álfur úti á túni. Ég rataði rétta leið þegar ég hafði náð áttum. Þetta var góð áminning. um að maður þekkir ekki svæði þó maður haldi það. Bera skal virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu. Maðurinn er bara montið peð.
Ég er að vefa vörður og ég mun sýna þær næsta vor. Ég hef farið um að skoðað vörður, ljósmyndað, látíð þær leiða mig áfram og borðað nesti hjá þeim. Stundum hef ég haft annan félagsskap en vörðu má þar nefna ýmsar vinkonur sem hafa komið með mér í leiðangra (án þess að vita að í undirbúningi væri myndlistarverk og sýning) fuglar eða hrúturinn góði sem ég hitti í gær.
Ég ljósmynda vörðurnar, ég skissa þær upp með blýanti, tússi, kolum eða vatnslitum. Síðan vef ég þær að lokum. þegar mest lætur er ég að vefa myndvef með 10-20 endum og það þarf aldeilis að einbeita sér til að ruglast ekki í ríminu. En þetta starf mitt er gefandi á allan hátt nema fjárhagslega ;) En ég kvarta ekki því ég hef þak yfir höfuðið og nóg að snæða og er í tveimur launavinnum með þessu. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
November 2022
|