Það vita ekki allir, það vita sumir kannski örfáir að ég er heltekin af vörðum, tilgang varða, öryggishlutverk þeirra, fagurfræði varða, menningarhlutverk þeirra hjá þjóð og jafnvel leita ég að draugum á þeim slóðum sem menn hafa villst af varðaðri leið og orðið úti, eins og á Mosfellsheiði. Túristavörturnar pirra mig, ég sé þær eins og aðrir sjá veggjakrot. Sumum finnst túristavörturnar allt í lagi, en mér finnst það ekki.
Ég þrammaði um Mosfellsheiði í morgun og heimsótti nokkrar vörður. M.a. þessa stóru sem ég tók mynd af með sjálfri mér. Fé var á beit hist og her og áður en smalarnir komu til að reka féð heim á Heiðarbæ þá rakst ég á þennan vinalega hrút sem að kom hlaupandi til mín þegar ég beygði mig niður og kallaði á hann. Við áttum gott samtal og svo fór hvort í sína áttina. Some know that I am obsessed with cairns. The meaning of the cairns, the safety of cairns, the aestheticism of cairns, cultural meaning and I even look for ghosts in areas where men have lost their way marked with cairns and died at the hands of natural forces, like on Mosfellsheiði heath. I dislike the the cairn-like things that the tourists keep dripping around like the worst graffiti ever. Graffiti is fine tourist cairns, or warts as we call them NOT. I hiked around Mosfellheiði this morning and visited some cairns and a friendly ram came along for a chat.
0 Comments
Ég vann í mörg ár sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna hér á landi, mest á sumrin. Var mikið í göngum með ferðamennina um fjöll og firnindi. Þeim fannst Ísland auðvitað áhugavert en mörgum ef ekki flestum fanns að það var gaman að upplifa íslenskt sumar en langaði alls ekki til að búa við svona sumur. Í þeirra huga vantaði hitann, meira sólskin, dimm og hlý sumarkvöld og annað í þeim dúr svo menn gætu spígsporað um á sumarfötum.
Svo er þetta með vorið, hvenær er vor á Íslandi. Ég rabbaði við nokkra vini um það í vor. Það er ekkert almennilegt vor á Íslandi, það vantar alveg ákefðina í vorið þegar lífið vaknar og það er ekkert vor þegar það er bara kalt. Mér fannst fólk ekki líta til birtunnar, hún er sannarlega vorboði. Með birtunni hlýnar ögn. Ilmurinnaf jörðinni þegar daginn lengir og það kviknar smá líf í sverðinum. Farfuglarnir mæta á svæðið og það verður kliður og söngur á hverju strái. Svo bætir bara í birtu og sumarið er allt í einu komið. Gróðurinn fer á harðasprettu. Júní hinn bjarti og júníregn sem er ekki eins og annað regn. Ilmurinn maður! Júlí þegar gróðurinn nær fullum þroska og grösin fara að sá sér og ofnæmið gerir vart við sig hjá sumum. Myndin er tekin að kvöldi 23.júní, það var norðan garri og skjól sunnan við vegg. Það kvökuðu og görguðu fuglar allt í kring enda var ég í Friðlandi fugla í Flóanum. Það var sumar! ![]() Ég á heima í 89 m2 íbúð. Hún inniheldur stofu, eldhús, gang, anddyri, baðherbergi, vefstofu og geymslu. Ég hafði aðgang að frábæru geymslurými í húsi foreldra minna á meðan það var. Ekkjan móðir mín seldi húsið fyrir 5 árum síðan og var það vegna þrýstings frá mér, ég var með áróður og ýtni í þrjú ár áður en hún setti húsið á sölu og seldi innan árs. Ekki nóg með að ég tók að mér að tæma hiða svakalega háaloft, sem ég fór að kalla svartholið þegar mér fannst era endalaust af dóti sem að var dröslast niður með. Dröslast segi ég því að til að komast upp var klifinn álstigi og farið upp um op sem var h.u.b. 90x90 cm. Sömu leið niður með alls konar dót t.d. þvottavél árgerð 1962 sem hafði verið keypt til að þvo bleyjur af barninu mér. Þetta átti ekki að vera frásögn um þegar ég tæmdi háaloftið einnig þekkt sem svartholið heldur hvernig ég nýti húsnæðið mitt, en háaloftið og bílskúrinn í Blikanesinu verða að koma að sögu. Á háaloftinu geymdi ég alls konar dót sem var í biðstöðu og óseld myndlistarverk. Í bílskúrnum hafði ég tekið við verkfærum og viðgerðarplássinum sem faðir minn nýtti. En þegar mamma seldi og húsið tæmdist þá bættist við dót, m.a. kláruð myndlistarverk eftir mig heima hjá mér og nokkur húsgögn. Með húsgögnin setti ég upp reglu; eitt inn annað út. Þannig seldi ég fyrir lítið hillu og tók inn lágan skáp sem gæti kallast skenkur, en hann er fyrst elhdúsmubla foreldra minna, smíðuð í Reykjavík á 6. áratugnum. Út fór fyrsta eldhúsmublan mín, borð sem ég keypti gegnum auglýsingu í Þjóðviljanum 1988. Merkilegt borð; maður lyfti borðplötunni af og gat þá sveflað upp straubretti á örmum, sem að geymdist undir borðplötunni. Inn kom annað vængjaborð. Út fóru fínir tekkstólar sem ég hafði fengið gefins frá vinkonu mömmu inn komu 150 ára gamlir. Svo leigði ég geymslu undir myndverkin mín til að rýma til hér heima. Það kom að því að sagði upp geymslurýminu því yfir mig kom tilfinning að ég þyrfti að draga saman seglin. Það reyndist rétt tilfinning því skömmu seinna var mér sagt upp vinnunni þeger covid.19 brast á. Veitti ekki af að spara aurana. Allt dótið heim. Endurskipulag á heimilinu. Það tókst einhvern veginn og það er ekki ofhlaðið enda gaf ég hluti sem ég þurfti ekki að nota lengur og hafði ekki notað lengi. Nú er vefstofan mín búin að vera málunarverkstæði í mánuð. Ég var að mála neðri eldhússkápahurðirnar mína. Breiddi yfir vefstólinn Varpapuu, singer saumavélina Jósefínu og gólfið allt með plasti. Pússaði, grunnaði og málaði á víxl. Nú er ég orðin leið á þeirri iðju og byrjuð að taka saman og breyta í vefstofu aftur. Áður hef ég t.d. breytt eldhúsinu í smíðaverkstæði í einn dag og baðherbergið var málunarverkstæði þegar ég var enn að vinna á ferðaskrifstofunni og notaði sturtuna þar daglega eftir hjólatúr morgunsins. Stundum óska ég þess að ég ætti bílskúr og þyrfti ekki að breiða yfir vefstóla og umbylta heimilinu í nokkrar vikur þegar ég mála eða smíða. En eftir að hafa tekið þátt í tiltekt og brottkasti textílfélagsins þegar það skipti úr stórri sameiginlegri vinustofu til tíu ára í minna rými þá var ég fegin að hafa ekki meira húsnæði til að safna dóti í sem að svo hverfur á bakvið annað dót og koll af kolli. Eiginlega er ég nokkuð sátt við mitt húsnæði. Ég á mér samt bílskursdrauma enn. Ég tek þátt í hönnunarmars í fyrsta sinn. Ég lít reyndar ekki á mig sem hönnuð, heldur myndlistarmann, jafnvel þó ég vinni í textíl. Það er tilhneiging til að setja þá sem nota textíl sem miðil í hönnunarboxið. En þá vaknar á móti spurningin hver er munurinn á hönnuði og myndlistarmanni?
Ég hugsa þetta oft þannig að hönnuður hann hannar hluti, muni, flíkur osfr. sem að aðrir framleiða og oft er framleitt í massavís. Myndlistamaðurinn skapar verk og vinnur þau sjálfur og verkin eru einstök. Oft eru gefin út kort og plaköt með myndum af verkunum. Þar liggur þó efinn. Sumir myndlistamenn hanna verkin sín og láta öðrum eftir að skapa eða framleiða þau. Ég gúgglaði "difference between art and design" . Margir hafa tjáð sig um efnið á bloggum sínum. Í stuttu máli virðast flestir komast að niðurstöðunni: List og hönnun skarast oft á. List er ferðalag. Hönnun er ferill. Munurinn getur falist í sjónarmiði skoðandans og skaparans. Hönnun getur verið samspil fagurfræði og hagnýtrar úrlausnar. List er fagurfræði. Svona má lengi telja. Hver stýrir sjónarmiðinu skoðandinn eða skaparinn? Ég lít á mig sem myndlistarmann sem vinnur með textíl efni. Kannski er ég hönnuður þegar tuskumotturnar mínar eru hagnýtar gólfmottur en myndlistarmaður þegar þær eru hengdar á vegg til yndisauka. Ég held reyndar að ég sé á mörkunum og ég spyr sjálfa mig oft; þarf ég að skilgreina mig? Hvað um það ég tek þátt í hönnunarmars í fyrsta sinn með verk sem er myndlist. Svona lýsi ég verkinu og sjálfri mér: “Ég er gras sagði skáldið og græ yfir spor ykkar.” Verkið er tilvitnun í ljóðið “Verdun” eftir Matthías Johannessen sem vitnar í ljóð Steins Steinars “Gras” sem er þýðing á ljóði bandaríska ljóðskáldsins Carl Sandburg. “Grass” Ljóðin fjalla um fyrri heimsstyrjöldina m.a. á Verdun og Ypres og hrylllinginn þar. Matthías fjallar um stemmninguna við að vera á grónum vígstöðvunum áratugum síðar. Steinn Steinarr hreifst af ljóði Carls Sandburg og þýddi það frjálslega. Carl Sandburg upplifði hryllinginn og sneri honum í ljóð. Ég er snortin af þessum ljóðum og legg til mitt verk: Ljóðlína ofin úr hör; Linum usitatissimum sem er ein konar gras. Anna María Lind Geirsdóttir (1962) vefur yfirleitt úr tuskum en stundum notar hún önnur efni þegar tilefni er til. Vefstóllinn hefur verið miðill hennar en einnig hefur hún notað spuna bæði á snældu og rokk og aðrar aðferðirtil að tjá sig. Verk hennar eru alltaf sögur, frásagnir eða skilaboð til skoðenda verkanna enda lítur hún á myndlist sem miðil til að koma á framfæri því sem henni þykir mikilvægt m.a. loftslagsmál, nýtni og sjálfbærni. Anna María er með MA í textíl myndlist frá University of Southampton. Heimili og vinnustofa eru í Reykjavík. . Fyrsti mottuþvottur ársins. Rosalega gaman. Skúra og skrúbba mottuna og síðan hengja út. Hlakka til að leggja hana aftur á gólfið því ilmurinn af nýþveginni mottu er einstakur hvað þá ilmurinn af mottu sem hefur þornað úti á snúru. MARS heitir þessi heklaða húfa enda er hún hekluð í mars, meira að segja kannski í febrúar. Hún er til sölu ef einhver vill eignast heklaða baskahúfu sem á engan sinn líka. En hvað finnst þér að svona húfa ætti að kosta, þ.e. hvað ertu tilbúin til að borga fyrir svona húfu. Hún er hönnuð af mér, hún er einstök og það mun ekki verða önnur eins verða hekluð. Það verða kannski heklaðar aðrar sem líkjast henni en engin eins. Það tók mig 28 klt að hekla húfuna og síðan að ganga frá endum. Ef þeir klukkutímar eru margfaldaðir með dæmigerðu verkatakakaupi þá er komin dálagleg summa. Í rúmlega ár hef ég verið að vefa vörður. Þetta eru allt vörður sem ég hef hitt fyrir á göngum á fornum stígum. Ég lít á þær sem vini og í fyrsta sinn sem ég upplifði mikilvægi varðanna var fyrir um 40 árum síðan. Eftir að skóladegi í MHÍ lauk hafði ég húkkað mér far frá Rauðavatni upp í Bláfjöll til að fara á gönguskíði. Ég átti ekki bíl og var auralítill myndlistarnemi. Áætlunin mín var þessi: Skíða frá skíðasvæðinu í vestur að Grindarskörðum og fylgja vörðunum niður að vegi, Hafnarfjarðarleiðina í Bláfjöll og húkka mér far heim þaðan. Veður var mæta gott sem og skyggnið. En veður skipast fljótt í lofti. Þegar ég var komin í skörðin fór að hvessa og síðan þykknaði upp og áður en varði var komin hríð. Ég var með landakort og áttavita og var búin að finna til allar stefnur sem ég ætlaði að fylgja niður að vegi. Þetta var síðdegis á virkum degi í febrúar. Ég sá nú ekki mikið frá mér á þar sem ég telemarkaði eftir bestu getu niður skörðin en eitt sá ég og það voru vörður sem voru staðsettar þannig að þegar einni sleppit fór ég að grilla í næstu. Ég komst niður á veg eftir nokkuð margar telemark beygjur. Þar tók ég mér gott hlé og snæddi nesti. Það var orðið dimmt og ekki linnti hríðinni. Ég hugleiddi að skíða Selvogsgötuna á enda niður í Hafnarfjörð og gældi líka við hugmyndina að skíða meðfram veginum ef bíll skyldi nú koma, en enginn bíll hafði birst á meðan ég áði við veginn. Ekki ætlaði ég að dvelja í slysavarnarskýlinu. Leikar fóru þannig að loksins kom bíll. Ég rétti út hendi með þumalfingur á lofti og vonaði hið besta. Bíllinn stansaði og mér var boðið far. Hjónin í bílnu sögðu mér að lyftunum hefði verið lokað þegar hríðin skall á það var of hvasst að halda þeim gangandi. Þessi litla skíðaferð er ein minnistæðasta sem ég hef farið vegna varðanna sem að vísuðu mér veginn og þar með sönnuðu þær gildi sitt fyrir mér. Þær eru kannski undanfarar gps tækjanna. Góður dagur í vinnustofunni Weberstrasse er þegar ég þarf ekki að bregða mér af bæ, er með góða hljóðbók til að hlusta á og er við vefstólinn í 8-10 tíma með tehléum og stundum hádegisverðarhléi. Þetta er rosalega gaman og erfitt að útskýra hvað er svona skemmtilegt við þetta. Aðrir sem að eru að vinna við eitthvað skapandi þekkja væntanlega þessa tilfinningu. Ég man eftir einu skipti, það varði í viku eða svo. Það var vetur og ég var bara heima að vefa, fór í gönguferð um næstu hverfi fyrir svefninn og svo heim. Hitti engan má vera að ég hafi talað við einhverja í síma. Ég var alsæl í hellinum mínum. En það koma að endalokum; maturinn kláraðist. Man ég fór og fékk egg að láni hjá nágranna seint um kvöld til að geta eldað mér eitthvað. Mig langaði alls ekki úr þessu sjálfskipaða Nirvana en svo fóru leikar að ég sá fram á að verða verulega skrýtin og haldin samskiptafælni ef svo héldi áfram. Á dagskrá voru því settar heimsóknir á bókasöfn, kaffihús, heim til vina og kunningja og útivist. Þetta fór allt vel og ég endaði ekki í spennutreyju þá daga sem ég komst ekki í vefstólinn minn. Mér til mikillar undrunar lenti ég í hinu andstæða fyrir þremur árum síðan, mig langaði alls ekki að vinna í vefstólnum og ég hunsaði hann eftir bestu getu þar til í janúar fyrir ári síðan. Í fyrsta skipti sem mig langaði hætta þessu listabrölti og selja vefstólinn var þegar ég útskrifaðist úr Textíldeild Myndlista og handíðaskólans með lægstu einkunn okkar úr Textíldeild og umsögnin var nokkurn veginn svona: Lokaverkefnið ólistrænt. Ég hugsaði lokaverkefnisdómurunum þegjandi þörfina í þó nokkurn tíma. Ég stúderaði verk þeirra beggja og komst að þeirri niðurstöðu að þær væru sjálfar ólistrænar með meiru. Ég hef bara haldið mínu striki að vinna list mína úr endurunnu efni og glíma við vefstólinn á alls kyns hátt. Mig langar alls ekki að vera "póstkorta listamaður" þ.e. myndlistarmaður sem að framleiðir lítil, sæt og söluvæn verk. Ég hef kosið að vinna launavinnu, enda hollt að fara af bæ og út úr vinnustofunni endrum og ein, og fá kaup í lok hvers mánaðar í stað þess að framleiða söluvæn verk. Í Weberstrasse þar sem mín lögmál gilda vinn ég launalaust nema ég selji verk. Það er gaman að vera myndlistarmaður ef sköpunargleðin er fyrir hendi og það er til salt í grautinn. Góðar stundir :) ![]() Hvaðan kemur ull? Ull eru hár sem að við menn nytjum af sauðfé. Það er til alls konar fé út um allan hnött. Á Íslandi er ein tegund fjár; íslenska sauðkindin. Á henni vex ull, en það eru tvenns konar hár þel og tog. Þelið er mjúkt og er um 4-6 cm á lengd og einangrar kindina. Til að bæta um betur þá er togið lengra en þelið og getur orðið um 20 cma langt. Togið hylur þelið og er eins konar skjöldur sem hlífir kindinni gegn vætu. Þetta er lýsing á þeli og togi í mjög stuttu máli. Ullarhár eru mæld í mikrón, þvermálið er mælt. Ef þvermálið er grófara en 22 mikrón þá klæjar mörgum undan ullinni. Ef hún er 22 míkrón og fíngerðari þá klæjar flestum ekki undan henni. Þel af íslenskum kindum getur verið innan 22 míkróna en togið er alltaf yfir. Ull af lömbum er fíngerðari en af fullorðnu. Gegnum tíðina hefur ull verið spunnina á íslenskum heimilum þar til byrjun 20. aldar. Það tíðkaðist að taka ofanaf reyfum , þ.e. að aðskilja tog og þel. Þá hafði fólkið tvö efni; fínt þel í nærfatnað og tog sem t.d. mátti nota í reipi, efni í poka og utanyfir fatnað af einhverju tagi. Einnig var spunnið upp með öllu þ.e. án þess að aðskilja hárin, það hefur verið í grófari föt t.d. vinnuvettlinga og sokka. Það má leiða að því líkum að fé var ræktað til að geta gengið úti allan ársins hring og það vafalítið fé sem var ræktað með ullargæði í huga og ekki síst að gott var að vinna úr ullinni þ.e. aðskilja tog og þel og spinna. Þegar ullar verksmiðjur voru stofnaðar gat fólkið lagt ullina inn. Það gat tekið út lyppur í staðin. Lyppa er sama og lopi þ.e. ullarhár eða trefjar sem hafa verið kemd og dregin til í lengju sem hægt er að spinna úr. Fólk tók því ofanaf hluta ullarinnar og lagði inn þel sem var unnið í lyppur og það var spunniið úr því á heimilinum. Þarna sparaðist mikið handavinna.
Íslensku verksmiðjurnar lentu í vanda því þær gætu ekki spunnið fínt band upp með öllu. Þær höfðu ekki heldur tæki til að taka ofanaf. Þess vegna var snemma byrjað að flytja inn þel ull sem var lengri en þelið en styttri en togið. Útí heimi hafði fólk verið að rækta kindur þannig að togið hvarf. Merínó kindur eru afsprengi þess. Merínó kindin er í sjálfu sér ill meðferð á kind. Toglausar, vitlausar og með aukafellingu á húðinni til að auka yfirborð hennar svo fáist meiri ull. Kindin fer ekki úr reyfum heldur vex ullin endalaust og ef kindin er ekki reglulega rúin mun ullin þófna á henni og hún verða í miklum erfiðleikum með baggann. Merínó er ekki eina fjártegundin sem er afsprengi svona ræktunar. Hélene Magnússon er prjónahönnuður sem hefur mikinn áhuga á að nýta ull af íslenskum kindum í hönnun sinni. Það var mjög erfitt að finna band úr hreinni íslenskri ull hvað þá að láta vinna slíkt fyrir sig svo það endaði á að Hélene fór út í það að kaupa tonn af ull af ullarþvottastöðinni Blönduósi og láta spinna fyrir sig band og lita, á Ítalíu. Hún greinir frá þessu á heimasíðu sinni. Hún lætur vinna bandið með togi, mismiklu þó. Það eru tvær smáullarvinnslur á Íslandi sem að eru með búnað frá Mini Mill fyrirtækinu sem er staðsett í Belfast í Kanada. Þetta eru Gilhagi og Uppspuni. Þær eru með vélar sem aðskilja tog frá þeli og þær spinna band með mismiklu togi í. Þegar ég gekk á Bændaskólann á Hvanneyri á 9. áratug s.l. aldar skrifaði ég ritgerð um ull í faginu sauðfjárrækt. Ég hafði samband við Álafoss og spurði m.a. um innflutta ull og af hverju þeir væru ekki með vél sem að tæki ofanaf. Ég fékk þá skýringu að ekki væri til vél sem að tæki ofanaf og að innflutta ullin væri til að brúa bil milli lengdar á þeli og togi. Mér vitanlega þá hefur Ístex sem tók við af Álafoss ekki fjárfest í vél til að taka ofanaf og eru enn að flytja inn ull. Að vísu eru þeir hættir að spinna kambgarnið sitt, kaupa tilbúið spunnið barn að utan og lita í verksmiðjunni. Lambsullarbandið sem Ístex er að spinna úr núna er að ég best veit blanda af ull íslenskra lambsullar og innfluttrar ullar. Það þarf að brúa bil lengdar þels og togs jafnvel þó um lambsull sé að ræða. 100% ull getur verið ull hvaðanæva úr heiminum. 100% íslensk ull er ull af íslenskum kindum. |
AuthorAnna María Lind, MA Textile Art Winchester School of Art. Archives
November 2022
|